Stjarnan tók á móti Grindavík í Umhyggjuhöllinni í kvöld í 18. umferð Bónus deildar kvenna. Bæði lið áttu góða kafla í leiknum en að lokum var það Grindavík sem átti seinustu góðu rispuna og Stjarnan náði ekki að brúa bilið tímanlega. Grindavík vann leikinn því 62-66.
Gangur leiks
Liðin byrjuðu á að skiptast á körfum en Grindavík tók fljótlega forystuna og Stjarnan náði ekki að jafna stigaskorið fyrr en við lok leikhlutans. Heimastúlkurnar úr Garðabænum gerðu reyndar betur en svo og tóku forystuna seinustu mínútuna. Staðan 20-18 eftir fyrsta leikhlutann.
Hvorugt liðið var að hitta sérlega vel í leiknum og stigaskorið breyttist ekkert fyrstu 2:30 í öðrum leikhlutanum. Þá byrjuðu Grindvíkingar hægt og rólega að síga fram úr og tóku forystuna og héldu henni út fyrri hálfleikinn. Seinustu þrjár mínútur leikhlutans settu þær grindvísku aðeins í hærri gír og tóku 8-2 áhlaup svo staðan var 29-37 þegar liðin héldu í búningsklefana í hálfleik.
Stjörnustúlkur mættu beittar eftir hálfleiksræðu Óla Jónasar, þjálfara þeirra, enda tóku þær 11-4 rispu fyrstu fimm mínútur þriðja fjórðungsins og voru komnar aftur inn í leikinn. Það sem eftir var af leikhlutanum var Stjarnan aðeins betri en Grindavík og svöruðu fyrir slakan annan leikhluta. Heimaliðið leiddi 51-49 fyrir lokaleikhlutann. Stjarnan hafði tapað öðrum leikhlutanum með 10 stigum en unnu þann þriðja með 10 stigum. Miklar sveiflur.
Botninn fór aðeins að detta úr hjá Stjörnunni í lokafjórðungnum og Grindavík náði 7 stiga forystu áður en Óli Jónas tók leikhlé til að ræða við sitt lið. Það hafði ekki til ætluð áhrif því að Grindavík náði að skora strax í þeirra næstu sókn og gestirnir því með 10 stiga forystu og aðeins fimm mínútur eftir af leik þar sem stigaskorið var frekar lágt.
Þó að Grindavík hafi ekki skorað körfu síðustu 4 mínútur leiksins var munurinn of mikill og Stjarnan gat ekki minnkað bilið nægjanlega. Leikurinn endaði því í stöðuni 62-66, Grindavík í vil.
Tölfræði leiksins
Vendipunkturinn
Um miðbik fjórða leikhluta voru Grindvíkingar með 10 stiga forystu. Stjarnan náði að tálga niður stigabilið svo það munaði aðeins fjórum stigum á liðunum þegar 2 mínútur voru eftir.
Þá skyndilega gátu Stjörnustúlkur hvorki fundið hvora aðra né körfuna. Garðbæjingar klikkuðu á 3 skotum og töpuðu 2 boltum seinustu tvær mínútur leiksins og þar með breyttist staðan ekkert.
Atkvæðamestar
Hjá Grindavík var Daisha Bradford atkvæðamest með 17 stig, 7 fráköst, 4 stoðsendingar og 4 stolnir boltar (og reyndar líka 7 tapaðir boltar). Það munaði minnstu að hún væri hæst í öllum tölfræðiþáttum, en Isabella Ósk Sigurðardóttir átti reyndar frákastabaráttuna hjá Grindavík (14 fráköst, þ.a. 11 varnarfráköst og 3 sóknarfráköst).
Í Stjörnuliðinu var fátt um fína drætti en Fanney María Freysdóttir og Diljá Ögn Lárusdóttir voru skástar. Fanney lauk leik með 10 stig, 7 stoðsendingar, 3 stolna bolta og 17 í framlag. Diljá var stigahæst hjá Stjörnunni með 18 stig en þurfti til þess 18 skot (39% skotnýting) og tapaði 6 boltum.
Kjarninn
Stjarnan gat kannski ekki komist upp í efri hluta deildarinnar fyrir skiptinguna eftir 18. umferðina en þær hefðu getað tryggt sér efsta sætið í B-hluta deildarinnar í bili með sigri. Nú verður þetta baráttulið að vanda sig til að eiga ekki á hættu að falla niður í botnbaráttusætin.
Grindavík lagaði svo sem ekkert mikið stöðu sína í deildinni með þessum sigri en þær virðast betur spilandi en áður og ef þær geta haldið sér á sigurbraut þegar deildin skiptist þá geta þær haldið sér uppi í deild hinna bestu og kannski jafnvel laumað sér í úrslitakeppnina.