Grindavík lagði heimamenn í Keflavík í Blue höllinni í kvöld í 19. umferð Subway deildar karla, 74-87.
Eftir leikinn er Grindavík í 2.-3. sæti deildarinnar með 26 stig líkt og Njarðvík á meðan að Keflavík er í 4.-5. sætinu með 24 stig líkt og Þór.
Leikur kvöldsins var nokkuð kaflaskiptur þar sem gestirnir úr Grindavík gjörsamlega áttu leikinn í fyrri hálfleik og leiddu með 16 stigum þegar liðin héldu til búningsherbergja, 32-48. Keflavík gerir ágætlega að koma til baka í seinni hálfleiknum og ná að koma forskotinu niður í 5 stig í þriðja leikhlutanum, 45-50. Gestirnir gera þó vel að hleypa þeim ekki nær, halda mun liðanna í kringum 10 stigin nánast út leikinn og sigra að lokum með 13, 74-87.
Atkvæðamestur heimamanna í leiknum var Remy Martin með 19 stig og 5 stoðsendingar. Fyrir Grindavík var Dedrick Basile atkvæðamestur með 23 stig, 7 fráköst og 10 stoðsendingar.
Viðtöl upphaflega birt á vef Víkurfrétta