spot_img
HomeFréttirGrindavík vann mikilvægan sigur á grönnum sínum úr Keflavík

Grindavík vann mikilvægan sigur á grönnum sínum úr Keflavík

Grindavíkurkonur settu fyrstu stig kvöldsins þegar Ingibjörg Jakobsdóttir hitti úr báðum vítum sínum, eftir það áttu Keflavíkur konur 0-14 áhlaup þar sem gestgjöfunum tókst ómögulega að koma boltanum ofan í körfuna eða hreinlega senda á milli sín. Eftir þessi ósköp jafnaðist leikurinn og kom Grindavík hægt og rólega til baka allt til enda leikhlutans og setti  Íris Sverrisdóttir niður þriggja stiga skot þegar aðeins 10 sekúndur voru eftir af leikhlutanum og fóru liðin jöfn í næsta leikhluta í stöðunni 25-25. 

 

Grindavík skoraði fyrstu fjögur stig í öðrum leikhluta  en þá tók Keflavík sig til og gerði annað áhlaup og breyttu  stöðunni  úr 31-27 í 31-38 og komust þær mest í 11 stiga  forustu í leikhlutanum.

 

Leikmenn Keflavíkur voru að spila mjög vel  á þessum tímapunkti í leiknum létu boltann rúlla vel og tóku góð skot. Heimakonur rönkuðu þó við sér og náðu  að minnka muninn í 40-46 fyrir hálfleilk. 

 

Í seinni hálfleik má segja að heimakonur úr Grindavík hafi hreinlega skellt í lás, þær spiluðu feikna fína vörn og komust gestirnir úr Keflavík hvorki lönd né strönd. Unnu stelpurnar úr Grindavík þriðja leikhluta 19-10 og leiddu fyrir síðasta fjórðung með 3 stigum og spennandi lokaleikhluti framundan. 

 

Það er skemmst frá því að segja að hann spilaðist keimlíkt og sá þriðji þar sem heimastúlkur spiluðu fantavörn . Vendipunktur leiksins var þó sennilega þegar Petrúnella Skúladóttir  skoraði þrist lengst neðan úr bæ og náðu heimakonur að stoppa gestina í næstu sókn þeirra og skora síðan sjálfar í kjölfarið og þá var leikurinn í raun búinn. Grindavík héldu sjó það sem eftir lifði leiks og sigldu heim nokkuð öruggum sigri.  Lokatölur 75-66.
Með sigrinum er Grindavík nú komið í 3. sæti deildarinnar með 18 stig. Keflavík dettur niður í það 5. en Valskonur sitja nú á milli liðanna í 4. sæti en með jafnmörg stig og Grindavík. 

 

Texti: Ólöf Helga Pálsdóttir

 

Stigahæstu leikmenn: 

 

Grindavík: Whitney Michelle Frazier 24/13 fráköst, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 17/10 fráköst/5 stoðsendingar, Íris Sverrisdóttir 13, Petrúnella Skúladóttir 7/5 fráköst, Ingunn Embla Kristínardóttir 7/6 fráköst, Björg Guðrún Einarsdóttir 5, Ingibjörg Jakobsdóttir 2.

 

Keflavík: Melissa Zornig 23/10 fráköst, Marín Laufey Davíðsdóttir 11/6 fráköst, Thelma Dís Ágústsdóttir 11/11 fráköst, Sandra Lind Þrastardóttir 8/10 fráköst, Guðlaug Björt Júlíusdóttir 6, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 4, Bríet Sif Hinriksdóttir 3.

Fréttir
- Auglýsing -