spot_img
HomeBikarkeppniGrindavík valtaði yfir Fjölni í fjórða leikhluta og eru á leið í...

Grindavík valtaði yfir Fjölni í fjórða leikhluta og eru á leið í úrslit

Grindavík leikur til úrslita í Geysisbikar karla en liðið vann Fjölni í fyrri undanúrslitaleik dagsins.

Gangur leiksins:

Fjölnismenn voru skrefinu framar í fyrri hálfleik en Grindavík hélt í þá með litlum áhlaupum. Fjölnir setti 10 af 16 þriggja stiga skotum sínum í fyrri hálfleik sem skóp 46-42 forystu inní hálfleikinn.

Liðin skiptust á forystu í þriðja leikhluta en Arnar Björnsson setti flautuþrist til að loka leikhlutanum og koma Grindavík yfir 65-63. Segja má að það hafi verið upphafið af hruni Fjölnis í leiknum.

Einhverjir höfðu búist við æsilegum lokasprett en Grindavík var ekki á sama máli. Liðið valtaði yfir Fjölni í lokafjórðungnum og unnu öruggan 74-91 sigur að lokum.

Þáttaskil:

Varnarleikur Grindavíkur í fjórða leikhluta skóp sigurinn en liðið hélt Fjölni í 11 stig í lokafjórðungi leiksins. Liðið fór að framkvæma allar gjörðir sínar mun betur á báðum endum og fyrir vikið gekk Grindavík algjörlega frá leiknum í fjórða. Jere Vucica leikmaður Fjölnis fékk einnig á sig fjórðu villuna um miðbik fjórða leikhluta og fyrir vikið féll leikur Fjölnis algjörlega saman.

Niðurstaða:

Grindavík einfaldlega sýndi að liðið býr yfir mun meiri gæðum í liðinu sínu. Arnar Björnsson snar hitnaði í lokin og var með sex þriggja stiga körfur, þar af fjórar í seinni hálfleik. Einnig var Valdas Vasylis öflugur. Hjá Fjölni vantaði algjörlega framlag frá fleiri leikmönnum, þeir Srdan, Jere, Victor og Róbert báru liðið á herðum sér en aðrir leikmenn voru ekki nægilega góðir í dag.

Grindavík er komið í níunda sinn í úrslitaleik bikarsins í sögunni en síðast var liðið þar árið 2014.

Úrslitaleikurinn fer fram á laugardaginn kl 13:30. Í kvöld kemur í ljós hvort andstæðingurinn í þeim leik verður Tindastóll eða Stjarnan en þessi lið leika í kvöld í seinni undanúrslitaleiknum.

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Bára Dröfn)

Viðtöl eftir leik:

Fréttir
- Auglýsing -