Í kvöld fór fram fjórði leikur í einvíginu á milli Grindavíks og Vals, fyrir leikinn leiddu heimamenn, 2-1 og með sigri í kvöld myndu þeir senda Íslandsmeistarana í sumarfrí. Leikirnir hingað til hafa verið mjög spennandi og mikil barátta, ekki alltaf áferðarfallegasti boltinn en þvílík skemmtun. Leikurinn í kvöld var engin undantekkning, mikil spenna, mikil læti og mikill hasar. Eftir að Valsmenn höfðu undirtökin í byrjun, fór seigla heimamanna að detta inn og þeir unnu 82-74.
Fyrstu sóknir beggja liða bar merki um mikla taugaspennu, Valsmenn voru síðan fljótari að hrista hana af sér og voru mjög aðgangsharðir í vörninni og náðu að leysa sóknarhlutann vel. Þegar tæpar tvær og hálf mínúta voru eftir var Grindavík aðeins búin að setja 8 stig á töfluna og helmingurinn af þeim var af vítalínunni. Valur fór með 11 stiga forskot eftir fyrsta leikhlutann, 13-24.
Það voru sendur í upphafi annars leikhluta, Kane og Arnór rákust saman í loftinu undir körfunni hjá Val, Joshua tók boltann og hljóp beint í fangið á Óla. Stuttu seinna endakastast Booker á auglýsingaskilti. Sem betur fer slasaði sig engin við þetta. En Grindavík náði að herða á varnarleiknum sínum og voru með undirtökin til að byrja með en Valsmenn fengu meðbyr í seglin og fóru með 10 stiga forystu í hálfleikinn 37-47.
Eins og við var að búast komu Grindvíkingar með látum út í hálfleikinn, Kane setti niður sturlaðan partýþrist og skyndilega var forystan bara 4 stig. Grindvíkíngar hömruðu járnið á meðan það var heitt og komu muninum minnst niður í 1 stig, en Valsmenn fóru inn í síðasta leikhlutann 59-62.
Það var hátt spennustigið í síðasta leikhlutanum, mikil barátta hjá báðum liðum. Grindavík tekur forystuna síðan þegar rúmlega 7 mínútur voru eftir og stemmingin var öll þeirra megin. Valsmenn áttu fá svör við varnarleik heimamanna sem urðu bara sterkari þegar þeir voru farnir að eygja að komast í undanúrsltin. Kane kveikti síðan í húsinu með geggjaðri stökktroðslu. Valsmenn voru samt ekkert að gefast upp og síðustu 2 mínúturnar voru æsispennandi. Mikill darraðadans í lokin, Valsmenn áttu einhverjar 4-5 þriggja stiga tilraunir í lokin en ekkert fór ofaní. Grindavík vann 82-74.
Hjá Grindavík var Kane stighæstur eftir frábæran lokasprett, með 26 stig, Mortensen átti síðan sinn besta leik í þessu einvígi með 21 stig. Hjá Val var Badmus atkvæðamestur með 24 stig og Joshua með 17 stig.
Grindavík þarf núna að bíða eftir hvernig úrslitin enda í öðrum leikjum til að vita hverjir verða næstu andstæðingar þeirra.