spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaGrindavík minnkar muninn og býður upp í dans

Grindavík minnkar muninn og býður upp í dans

Grindavík er búið að minnka muninn í 2-1 í úrslitum 1. deildar kvenna eftir frækinn sigur á Njarðvíkingum. Lokatölur í Njarðtaksgryfjunni 63-68 þar sem Grindvíkingar héldu heimakonum í aðeins 6 stigum í fjórða leikhluta! 

Fyrir leikinn í kvöld höfðu Njarðvíkingar unnið 21 leik í röð í 1. deild kvenna en Grindvíkingar stöðvuðu þá gandreið. Grindavík hitti einnig á sinn besta þristaleik í seríunni og skelltu niður níu þristum og þar var Natalía Jenný Lucic Jónsdóttir fremst í flokki með 4 þrista í 7 tilraunum! Stigahæst gestanna í kvöld var Janno Jaye Otto með 26 stig og 7 fráköst. 

Stemmningin var öll í stúkunni í upphafi leiks, stuðningsmenn beggja liða í góðum gír en leikmenn eitthvað slyddulegir og töpuðu samtals 13 boltum í upphafsleikhlutanum. Heimakonur í Njarðvík tóku þó forystuna og leiddu 16-9 eftir upphafsleikhlutann þar sem Chelsea gerði 11 af fyrstu 16 stigum heimakvenna. 

Njarðvík opnaði annan leikhluta með 5-0 áhlaupi og komust í 21-9 þegar Ólöf Helga tók leikhlé fyrir Grindvíkinga. Gestirnir söfnuðu þó fljótt vopnum sínum og náðu að minnka muninn í 25-20 þar sem Hekla Eik leiddi sóknaraðgerðir gestanna. 

Annar leikhluti reyndist umtalsvert áferðafallegri körfubolti en sá fyrsti, gestirnir unnu leikhlutann 22-24 og miklu skipti að Otto fór að láta á sér kræla í sóknarleik Grindavíkur. Njarðvík leiddi 38-33 í leikhléi þar sem Chelsea var með 15 stig og Helena 11 í liði Njarðvíkur en Otto með 13 og Hekla 9 í liði Grindvíkinga. 

Skotnýting liðanna í hálfleik:

Njarðvík: 2ja 55% – 3ja 20% 

Grindavík: 2ja 35% – 3ja 35% 

Grindvíkingar smokruðu sér nærri í þriðja leikhluta, minnkuðu muninn í 49-48 og á meðan létu Njarðvíkingar sér ansi oft nægja að skjóta gegn svæðisvörninni fremur en að ráðast að körfunni. 

Grindavík jafnaði metin 55-55 en það var vel útfærð lokasókn Njarðvíkinga sem tryggði þeim 57-55 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Otto var komin með 24 stig í liði Grindavíkur að loknum þriðja leikhluta og að spila af mikilli festu. Grindavík vann leikhlutann 19-22 og æsispennandi lokasprettur framundan. 

Ekki var að sjá á gestunum að þær væru 2-0 undir í rimmunni því þær skutu af öryggi og komust í 58-63 áður en Chelsea Jennings minnkaði muninn í 61-63 með þrist fyrir heimakonur. Grindavíkurvörnin var þéttofin allan fjórða leikhluta og staðan jöfn 63-63 þegar 30 sekúndur voru til leiksloka. Otto kom Grindavík yfir 63-65 og næsta sókn heimakvenna geigaði. Njarðvík varð að brjóta og koma gestunum á vítalínunna en þá beið þeirra það verkefni að skora fjögur stig á tæpum 10 sekúndum á meðan þær höfðu aðeins skorað sex stig á rúmum níu mínútum. Það gekk ekki eftir og Grindavík landaði lífsnauðsynlegum sigri.  

Staðan er því 2-1 fyrir Njarðvík í rimmunni og Grindavík búið að bjóða upp í heljarinnar dans. Leikur tvö og þrjú voru miklir spennuslagir og má því fastlega gera ráð fyrir að liðin selji sig dýr í leik fjögur. 

Tölfræði leiksins

Myndasafn

Viðtöl:

Umfjöllun: JBÓ

Fréttir
- Auglýsing -