spot_img
HomeFréttirGrindavík Lengjubikarmeistari eftir dramatískan lokasprett

Grindavík Lengjubikarmeistari eftir dramatískan lokasprett

Grindvíkingar eru Lengjubikarmeistarar 2011 eftir 75-74 spennusigur á Keflavík. Hr. Kúpling (e. Mr. Clutch) Charles Parker leikmaður Keflavíkur átti lokaskotið og hefur gert það að iðju sinni í vetur að klára leiki fyrir Keflvíkinga. Að þessu sinni vildi lokaskotið ekki niður og Grindvíkingar fögnuðu sigri þar sem heljarmennið J´Nathan Bullock kom með enn eina tröllatvennuna, 27 stig og 11 fráköst. Hjá Keflavík átti Steven Gerard glimrandi dag með 26 stig og 4 stoðsendingar.
Magnús Þór Gunnarsson var í dag kominn í Keflavíkurliðið að nýju en í gær tók hann út leikbann gegn Snæfell. Þá var Páll Axel Vilbergsson í borgaralegum klæðum á bekknum hjá Grindavík en hann tognaði í gær aftan í læri í undanúrslitunum gegn Þór Þorlákshöfn.
 
Jóhann Árni Ólafsson var fljótur að kveðja sæti sitt í byrjunarliði Grindavíkur með tvær villur á jafn mörgum mínútum. Gulir byrjuðu þó betur, 2-6 en Keflvíkingar gerðu þá 6-0 áhlaup og Grindavík svaraði því með 8-0 dembu og staðan 8-16 Grindavík í vil. J´Nathan Bullock kom Grindvíkingum í 10-20 en Keflvíkingar áttu lokaorðið í fyrsta leikhluta með fimm stigum í röð og staðan því 15-20 fyrir Grindavík eftir fyrstu tíu mínúturnar.
 
Dóri ,,downtown“ eða Halldór Örn Halldórsson eins og hann var víst skírður smellti þrist og kom Keflavík í 21-20 og svæðisvörn Keflavíkur minnti óneitanlega á Þórsleik Grindavíkur í gær þar sem gulir voru lengi í gang gegn svæðisvörn Benedikts Guðmundssonar.
 
Liðin skiptust á sitthvoru 6-0 áhlaupinu en þá datt Steven Gerard í mikinn varnarham í liði Keflavíkur og Giordan Watson átti erfitt uppdráttar á löngum köflum. Björn Steinar Brynjólfsson minnkað muninn fyrir Grindavík í 36-33 með þriggja stiga körfu en eftir það gerðu Grindvíkingar allt rangt það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Keflavík vann annan leikhluta 27-15 þar sem Charles Parker gerði fjögur stig í röð á síðustu 12 sekúndum fyrri hálfleiks, fyrst með gegnumbroti og svo eftir stolinn bolta er hann brunaði upp völlinn og lagði boltann snyrtilega í körfuna um leið og leiktíminn rann út, hálfleikstölur 42-35 fyrir Keflavík.
 
Steven Gerard var með 11 stig og Charles Parker 10 í liði Keflavíkur en J´Nathan Bullock var með 16 stig og 5 fráköst hjá Grindvíkingum.
 
Aukin harka færðist í síðari hálfleikinn sem var mun jafnari en sá fyrri, Keflvíkingar náðu upp níu stiga forskoti 60-51 og voru mun grimmari í sínum aðgerðum framan af en Grindvíkingar gerðu fimm síðustu stig þriðja leikhluta og staðan 60-56 fyrir Keflavík þegar fjórði og síðasti leikhlutinn hófst.
 
Almar Guðbrandsson varð frá að víkja undir lok þriðja leikhluta með fimm villur sem allar voru af klaufalegri gerðinni en þessi stæðilegi miðherji hefur engu að síður verið að sýna lipra takta á tímabilinu og á vafalítið eftir að taka fleiri framfararskref á næstunni og verða þá Keflvíkingar enn hættulegri.
 
Í fjórða leikhluta mættust stálin stinn, Steven Gerard kom Keflavík í 63-58 með mögnuðum dreifbýlisþrist og á fyrstu mínútum fjórða leikhluta virtust Keflvíkingar ætla að sigla framúr Grindavík og verða fyrstir til að leggja þá að velli í vetur.
 
Steven Gerard fór á kostum á báðum endum vallarins í dag en Giordan Watson minnti rækilega á sig þegar hann jafnaði metin fyrir Grindavík í 71-71 með þriggja stiga körfu þegar þrjár mínútur voru til leiksloka. Keflvíkingar tóku leikhlé og Gerard kom þaðan út með þrist yfir Watson og staðan 74-71 fyrir Keflavík. Þegar hér var komið við sögu voru tvær og hálf mínúta til leiksloka.
 
Í stutu máli skoraði Keflavík ekki stig síðustu tvær og hálfa mínútuna og það kann ekki góðri lukku að stýra gegn Grindavík, jafnvel þó Páll Axel sé ekki með. J´Nathan Bullock náði grimmu sóknarfrákasti þegar ein og hálf mínúta var eftir og kom Grindavík í 74-75. Bullock kvaddi völlinn með 5 villur þegar 29 sekúndur voru eftir og úr varð að Keflavík átti lokasókn leiksins. 14 sekúndur voru á skotklukkunni þegar Charles Parker fékk boltann, hann keyrði hægra megin inn í Grindavíkurteiginn og tók erfitt skot sem rataði ekki rétta leið, Giordan Watson tók sitt níunda frákast og leiktíminn rann út og Grindvíkingar fögnuðu sigri.
 
 
Grindvíkingar hafa átt betri daga og hreinlega stálu sigrinum af Keflavík í dag. Lokaskotin hafa verið að detta hjá Keflavík í síðustu leikjum en heilladísirnar studdu þá ekki að þessu sinni. J´Nathan Bullock gerði eins og áður segir 27 stig og tók 11 fráköst. Aðrir í Grindavíkurliðinu voru daprir á löngum köflum en Þorleifur Ólafsson og Giordan Watson áttu sína spretti. Steven Gerard var magnaður á báðum endum vallarins fyrir Keflavík í dag með 26 stig og 4 stoðsendingar og Charles Parker bætti við 20 stigum og þá var Magnús Þór Gunnarsson með 11 stig.
 
Byrjunarliðin:
Keflavík: Steven Gerard, Magnús Þór Gunnarsson, Charles Parker, Jarryd Cole og Almar Guðbrandsson.
Grindavík: Giordan Watson, Ólafur Ólafsson, Jóhann Árni Ólafsson, J´Nathan Bullock og Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
 
Heildarskor:
 
Grindavík: J’Nathan Bullock 27/11 fráköst, Giordan Watson 15/9 fráköst/6 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 9/6 fráköst, Ólafur Ólafsson 9/4 fráköst, Þorleifur Ólafsson 8/5 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 4/4 fráköst, Björn Steinar Brynjólfsson 3, Þorsteinn Finnbogason 0, Jón Axel Guðmundsson 0, Jóhann Árni Ólafsson 0, Einar Ómar Eyjólfsson 0, Ármann Vilbergsson 0.
 
Keflavík: Steven Gerard Dagustino 26, Charles Michael Parker 20/4 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 11/6 fráköst, Jarryd Cole 7/7 fráköst, Halldór Örn Halldórsson 5/8 fráköst, Valur Orri Valsson 5, Ragnar Gerald Albertsson 0, Sigurður Friðrik Gunnarsson 0, Hafliði Már Brynjarsson 0, Gunnar H. Stefánsson 0, Andri Daníelsson 0, Almar Stefán Guðbrandsson 0.
 
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Rögnvaldur Hreiðarsson
 
Myndir/ Tomasz Koldziejski – [email protected]
Umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]
 
  
Fréttir
- Auglýsing -