Liðin sem tókust á í úrslitum Domino's deildarinnar síðastliðið vor mættust í Grindavík í kvöld þar sem heimamenn höfðu harma að hefna. Þeir settu tóninn í byrjun og leiddu 24-14 eftir fyrsta leikhluta og létu forystuna ekki af hendi eftir það. Lokatölur Grindavík 94 – 84 KR.
Kjarninn
Grindvíkingar mættu ákveðnir til leiks frá fyrstu mínútu. Þeir hafa verið að finna sinn takt í upphafi móts og eftir grátleg tap gegn Njarðvík í bikarnum kom sennilega ekkert annað til greina en sigur í kvöld. KR-ingar eru sömuleiðis að stilla saman sína strengi, Pavel og Sigurður Þorvaldsson voru ekki með í kvöld og þá er Jón Arnór enn að glíma við meiðsli í nára og óvíst hvenær hann getur reimað á sig skóna á ný. KR er engu að síður með gríðarsterkt lið og þeir tóku marga góða spretti á Grindavík í kvöld. Grindavík stóð þá alla af sér og tók sömuleiðis sína eigin spretti, en mestur varð munurinn 14 stig og oftast í kringum 10.
Tölfræðin lýgur ekki
KR áttu ekki góðan skotdag í dag, en þeir nýttu ekki nema 36% skota sinna meðan að Grindavík var með afar góða nýtingu, eða 48%. Grindvíkingar voru líka að láta boltann ganga vel og fundu hvern annan oft í góðum færum 28 stoðsendingar heimamanna staðreynd, gegn 16 stoðsendingum gestanna.
Hetjan
Rashad Wack tók leikinn svolítið í sínar hendar í þriðja leikhlutanum, en þá gerðu Grindvíkingar heiðarlega tilraun til að kafsigla KR-ingana, sem er eitthvað sem tekst þó voða sjaldan. Wack setti 14 af 28 stigum sínum í þeim leikhluta, þar af voru 4 baneitraðir þristar.
Hljóðláta hetjan
Jóhann Árni Ólafsson átti hörkuleik í kvöld, þó það sjáist kannski ekki á tölfræðinni, 7 stig og 5 fráköst. En það sem þeir sem horfðu á leikinn sáu var óbilandi baráttuþrek og fórnfýsi en Jóhann var með bestu +/- tölur kvöldins, og var Grindavík +18 þegar hann var inni á vellinum.
Atvikið
Rétt rúmlega 1 sekúndu fyrir leikslok rann Dagur Kár á bleytu á gólfinu og virtist lenda illa á hnénu en hann greip um það um leið og var svo borinn útaf vellinum. Vonandi fyrir Grindvíkinga er ekki um alvarlega meiðsli að ræða hjá Degi.
Tónaflóðið
Áhorfendur í Grindavík í kvöld höfðu orð á því að plötusnúður kvöldsins í Mustad-höllinni hefði mögulega verið maður leiksins en hann keyrði upp stuðið af stakri snilld, og endaði svo kvöldið á laginu "Reykjavík er ömurleg" þegar úrslitin lágu fyrir. Playlisti kvöldins er aðgengilegur á Spotify hér fyrir utan hið stórfenglega lag Crocodile Chop sem má hlusta á hér.
Myndasafn 1 (Benóný Þórhallsson)
Myndasafn 2 (Siggeir F. Ævarsson)
Viðtöl eftir leik:
Umfjöllun – Siggeir F. Ævarsson