Undirritaður mættur á leik í fyrsta sinn í háa herrans til að skrifa fyrir Karfan.is og viðtöl fylgja svo í kjölfarið. Umræddur leikur á milli Grindavíkurstúlkna og Ármanns sem er gamalgróið félag úr Reykjavík. Þegar ég skoða KKÍ-vefinn nokkur ár aftur í tímann þá kemur í ljós að hlutskipti þessara liða er ansi ólíkt en UMFG hefur teflt fram kvennaliði síðan elstu menn muna en það er ekki á vísan að róa í þeim efnum hjá Ármannsstelpum. Síðast tefldu þær fram liði ´17-´18 tímabilið en áttu við frekar ramman reip að draga, töpuðu öllum leikjum sínum það árið.
Byrjun þeirra á þessu tímabili var glæsileg en frekar stutt því eftir flottan sigur í fyrsta leik sínum á móti Hamar-Þór, þá lentu þær í COVID-smiti og léku bara þann eina leik og vissulega leit record-ið þeirra betur út en síðast þegar þær mættu til leiks en 1/1 þýðir 100% sigurhlutfall….. Þær gátu síðan haldið leik áfram þegar keppni hófst á þessu ári en töpuðu þá á móti b-liði Fjölnis og hafa sem sagt leikið tvo leiki á mótinu til þessa.
Grindavík sem lenti í fallexi KKÍ eftir síðasta tímabil og var dæmt niður í 1. deild, gat spilað óáreitt þar til keppni var blásin af sl. haust, vann tvo og tapaði tveimur og vann svo eina leik sinn til þessa á þessu ári, gerðu góða ferð á Vestfirðina og unnu Vestra um síðustu helgi.
Þegar rýnt er í tölfræði þessara liða þá eru tveir leikmenn Grindavíkur sem hafa skorað nákvæmlega jafn mikið að meðaltali í vetur eða 18,6, stig en það eru þær Hekla Eik Nökkvadóttir og Hulda Björk Ólafsdóttir. Viktoría Rós Horne er sú þriðja sem er yfir hinum rómaða tveggja stafa múr með 11 stig að meðaltali. Hekla Eik tekur auk þess flest fráköst (11,4) og gefur flestar stoðsendingar (4,4) grindvískra.
Hjá Ármanni er einn leikmaður sem hefur dregið skorunarvagninn að mestu leyti fyrstu tvo leikina, Jónína Þórdís Karlsdóttir og hún tekur auk þess flest fráköst (21,5 stig og 10,5 fráköst). Næstu leikmenn í skorun eru þær Ísabella Lena Borgarsdóttir (8,5) og Auður Hreinsdóttir (7,5)
Í raun gat nánast verið um leik að ræða í stúlknaflokki, svo ungar eru þessar stelpur en margar efnilegar stelpur eru í þessum liðum og eru t.d. nokkrar landsliðsstúlkur í liði Grindavíkur en þær voru á undan upp úr startblokkunum og leiddu eftir fyrsta fjórðung, 20-12. Hekla Eik var atkvæðamikil hjá gulum með 12 stig og Ísabella var komin með 6 hinum megin.
Það leit út fyrir að heimastúlkur ætluðu að stynga af í seinni hálfleik og munurinn jókst hægt og bítandi, varð mestur 13 stig, 30-17 en þá tók stigamaskína Ármans, Jónína Þórdís sig til og smellti tveimur flottum þristum í grillið á gulum og leikurinn orðinn æsispennandi, 30-25 og Ólöf þjálfari UMFG tók leikhlé. Hennar stelpur tóku sig á og settu síðustu 5 stigin og 10 stigum munaði því eftir fyrri hálfleik, 35-25. Hekla Eik var stigahæst með 15 stig og Hulda með 8, hjá Ármanni voru Jónína (8) og Ísabella Lena (6) hlutskarpastar.
Eins og fram kom í viðtalinu við Ólöfu þjálfara Grindavíkur, þá greinilega las hún nokkuð rækilega yfir sínum stelpum í hálfleik því allt annað var að sjá til hennar stelpna og þegar tæpar fjórar mínútur lifðu þriðja leikhluta þá voru þær að vinna hann 19-9 og munurinn því orðinn 20 stig, 54-34 og liðin héldust hönd í hönd út fjórðunginn. Ljóst að mikið þyrfti að breytast til að niðurstaðan ætti að verða önnur en öruggur heimasigur.
Það sama var uppi á teningnum í fjórða leikhluta og bara spurning um hversu stór sigur heimastúlkna yrði. Aftur skoruðu þær 25 stig eins og í þriðja leikhlutanum og þar sem Ármannsstelpur settu bara 12 þá varð 33 stiga munur staðreynd í lokin, lokatölur 85-52.
Áður hefur verið minnst á þær Heklu og Huldu en þær skiluðu flestum framlagspunktum (Hulda 23 og Hekla 20) en ég ætla minnast á þær Lucic systur en það eru þríburarnir Thea, Natalía og Anna Margrét. Mest hefur borið á Natalíu undanfarin ár systur hennar tvær ætla greinilega ekkert að láta hana fanga alla athyglina og voru báðar fyrir ofan systur sína í kvöld í framlagspunktum, Thea með frábæra 18 punkta (12 stig og 8 fráköst) og Anna með 10. Sjálf var Natalía sem er fyrirliði Grindavíkur, með 8 framlagspunkta.
Áfram voru það þær Jónína sem er jafnframt aðstoðarþjálfari karls föður síns (karlinn heitir einmitt KARL Guðlaugsson), og Ísabella Lena sem voru hlutskarpastar í liði Ármanns, sú síðarnefnda með 17 stig og aðstoðarþjálfarinn með 14. Ljóst að fleiri leikmenn þurfa að leggja í púkkið en eins og fram kemur í viðtölunum við þau feðgin þá hafa þau fulla trú á að öðrum leikmönnum muni vaxa ásmegin eftir því sem líður á mótið.
Fín skemmtun í HS-orku höll Grindvíkinga en leikurinn var sýndur í beinni á vef Grindvíkinga í gegnum Oz.com, frábær nýbreytni sem vonandi mun færa félögum tekjur í vetur á þessum síðustu og verstu tímum.