Grindavík hafði betur gegn heimakonum í Þór á Akureyri í öðrum leik liðanna í 8 liða úrslitum Subway deildar kvenna, 85-101.
Grindavík hefur því unnið fyrstu tvo leiki einvígis liðanna og geta tryggt farseðil sinn í undanúrslitin með sigri í næsta leik.
Það voru heimakonur í Þór sem leiddu lengst af í leik kvöldsins. Grindavík var þó aldrei langt undan og þökk sé góðu áhlaupi frá fyrstu mínútum fjórða fjórðungs og út leikinn ná þær að tryggja sér sigurinn, en þær vinna leikhlutann með 18 stigum, 13-31 og leikinn að lokum með 16 stigum, 85-101.
Atkvæðamest fyrir Grindavík í leiknum var Danielle Rodriguez með 28 stig, 5 fráköst og 7 stoðsendingar. Henni næst var Eve Braslis með 21 stig, 9 fráköst og 4 stoðsendingar.
Fyrir heimakonur í Þór var Madison Sutton atkvæðamest með 27 stig, 7 fráköst, 7 stoðsendingar og Lore Devos var með 21 stig og 8 fráköst.
Þriðji og mögulega síðasti leikur einvígis liðanna er komandi þriðjudag 16. apríl í Smáranum.