Annar leikur KR og Grindavíkur í úrslitaviðureign liðanna í Dominosdeild karla fór hægt af stað. Það tók bæði lið rúma mínútu að fá stig á töfluna, en þar voru heimamenn á ferð með sniðskoti frá Sigurði Þorsteinssyni. Það tók hins vegar KR-inga góða eina og hálfa mínútu í viðbót til að setja sín fyrstu stig á töfluna, eftir stökkskot frá Pavel Ermolinskij. Bæði lið hittu illa í upphafi og varnarleikur beggja stórgóður strax frá upphafi.
Grindvíkingar hirtu fullt af sóknarfráköstum, með Sigurð Þorsteins í fararbroddi en nýttu þau aukatækifæri sem þeir fengu mjög illa. Voru með 39% nýtingu þegar langt var liðið á annan hluta þrátt fyrir 7 sóknarfráköst. Oftar en ekki enduðu þessi mistök með körfu á hinum endanum.
Sveitarstjórnarframbjóðandinn Ómar Örn Sævarsson var frábær á þessum kafla og reyndar í öllum leiknum. Póstaði grimmt á hvern sem lagði í að dekka hann og skoraði oftar en ekki. KR-ingar nýttu blokkina einnig mjög vel í fyrri hálfleik og þar var Helgi Már fremstur meðal jafningja og skoraði oft og mikið á þann veginn.
Fyrri hálfleik lauk með gestina yfir 33-40.
Sterkur varnarleikur hjá báðum liðum áfram í byrjun seinni hálfleiks. Þrátt fyrir slakan leik og dapra hittni tókst Grindvíkingum að hanga inni í leiknum. Grindvíkingar skoruðu ekki körfu utan að velli í rúmar 3 mínútur í þriðja hluta. KR-ingar nýttur sér það hins vegar engan veginn og fyrir vikið tókst þeim aldrei að hrista Grindvíkinga af sér. Í lok þriðja hluta losnuðu öll beisli af Lewis Clinch, sem hafði hitt afburða illa framan að, og hann hrökk í gang. Þristar á eftir þristum frá honum og Ólafi Ólafs og leikurinn allt í einu orðinn jafn.
Þegar hér var komið var leikurinn algerlega í járnum. Liðin skiptust ítrekað á forystunni eða alls sex sinnum það sem eftir lifði leiks, þar til maður leiksins og maður fólksins í Grindavík – Ómar Örn Sævarsson – tryggði heimamönnum sigurinn með sniðskoti þegar 6 sekúndur voru eftir af leiknum. Brynjari Þór tókst að ná af skoti áður en flautan gall en hafði ekki erindi sem erfiði. 79-76 sigur Grindvíkinga staðreynd og serían jöfn í 1-1.
Ótrúlegur leikur hjá Herra Ísland, Ómari Sævarssyni. Gríðarlega sterkur á blokkinn í sókn, skoraði 26 stig (10/12), hirti 11 fráköst og varði þrjú skot. Aðrir lögðu minna í sarpinn en Lewis Clinch var drjúgur á lokasprettinum auk mikilvægra þrista frá Ólafi Ólafssyni. Four-point-play hjá Daníel Guðna kom einnig á mjög mikilvægum tíma.
Hjá KR-ingum var fremur jafnt framlag frá flestum en Martin Hermannsson skaraði fram úr með svellkaldri frammistöðu á lokakaflanum. Það var ekki að sjá að þarna færi tæplega tvítugur gutti með boltann að stýra leik KR-inga. Stóísk ró yfir drengnum þrátt fyrir pressan væri mikil og lætin í húsinu langt yfir heilsuviðmiðum.
Grindvíkingar jöfnuðu metin og sendu skilaboð út til allra að þeir ætla ekki að gefa þessa seríu frá sér þrátt fyrir brösóttan leik framan af í kvöld og í síðasta leik. Þetta er það sem koma skal. Veislan er bara rétt að byrja.
Umfjöllun/ HT
Mynd/ JBÓ