spot_img
HomeFréttirGrindavík í undanúrslit Lengjubikarsins

Grindavík í undanúrslit Lengjubikarsins

Lengjubikarmeistarar Grindavíkur eru komnir í undanúrslit keppninnar eftir öruggan sigur á Keflavík í kvöld þar sem liðin áttust við í úrslitaleik A-riðils. Heimamenn í Grindavík létu 19 þristum rigna yfir Keflvíkinga!
 
Byrjunarlið Grindavíkur: Jóhann Árni Ólafsson, Davíð Ingi Bustion, Aaron Broussard, Samuel Zeglinski og Sigurður Gunnar Þorsteinsson
 
Byrjunarlið Keflavíkur: Valur Orri Valsson, Michael Craion, Stephen Mc Dowell, Magnús Þór Gunnarsson og Darrel Lewis
 
Leikurinn byrjaði mjög hægt og var mikið um tapaða bolta. Mikið var samt skorað og var staðan 27-27 eftir fyrsta leikhluta. Grindavík virtist alltaf skrefinu á undan og komust mest í 9 stiga forystu. Keflavík náði að jafna tvisvar en komst aldrei yfir. Michael Craion var að gera góða hluti fyrir Keflavík í leikhlutanum, var hann með 13 stig, en virtist það ekki nægja þeim. 
 
Í öðrum leikhluta hélt Grindavík áfram að sigla fram úr og komust í 55-44. Skotin voru ekki að detta niður fyrir Keflavík og hittu þeir einungis 3 af 10 í þriggja í fyrri hálfleik á meðan Grindavík setti niður 6 af 10. 
 
Aaron Broussard var komin með 23 stig fyrir Grindavík í hálfleik og Michael Craion með 17 stig fyrir Keflavík.
 
Í þriðja leikhluta héldu skotin áfram að detta fyrir Grindvíkingana og komust þeir í 23 stiga mun. Eftir leikhlutann var staðan orðin 90-69 og er það nú frekar hátt skor miðað við það að einn leikhluti var eftir. Samuel Zeglinski átti frábæran leikhluta og setti hann niður 5 þriggja stiga körfur. 
 
Fjórði leikhlutinn var svipaður og hinir en fengu allir leikmenn liðanna að spreyta sig í leiknum og þegar um 4 mínútur voru eftir höfðu allir leikmenn liðanna stigið á völlinn og lagt sitt af mörkum. Leikurinn endaði í stöðunni 116-81 fyrir Grindavík. 
 
Mikið var um tapaða bolta í leiknum en Grindavík tapaði boltanum 21 sinni á meðan Keflavík tapaði boltanum 20 sinnum.Skotnýtingin var ekki að gera sig hjá Keflvíkingum og voru þeir með 20,8% nýtingu í þriggja stiga á meðan Grindavík var með 65,5%
 
Stigahæstir fyrir Grindvíkinga voru þeir Samuel Zeglinski með 33 stig, 11 stoðsendingar og 5 fráköst, Aaron Broussard með 32 stig og Jóhann Árni Ólafsson með 16 stig.
Stigahæstir fyrir Keflvíkinga voru þeir Michael Craion með 26 stig og 7 fráköst, Stephen Mc Dawell með 23 stig og 5 tapaða bolta og Darrel Lewis með 15 stig og 6 fráköst. 
 
 
Viðtöl við Sverri Þór Sverrisson og Sigurð Ingimundarson þjálfara Grindavíkur og Keflavíkur má nálgast á Karfan TV. Ekki missa af þessu en spyrill er enginn annar en Grindvíkingurinn með gyllta hjartað, Jón Gauti Dagbjartsson.
 
Umfjöllun/ Jenný Ósk  
Mynd/ Úr safni
Fréttir
- Auglýsing -