spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaGrindavík grátlega nálægt fyrsta sigurleiknum gegn Keflavík

Grindavík grátlega nálægt fyrsta sigurleiknum gegn Keflavík

Sigurlausar Grindavíkurstelpur tóku á móti grönnum sínum frá Keflavík í 6. umferð Dominosdeildar kvenna í kvöld. Keflavíkurstúlkur eflaust ekki sáttar heldur með sína byrjun en þær höfðu unnið tvo og tapað þremur.

Gæðin sóknarlega voru ekki beysin í fyrsta fjórðungi og þegar tæpar tvær mínútur lifðu opnunarfjórðungsins þá var hvorugt lið komið í tveggja stafa stiga skor og staðan eftir ¼ 11-9. Ekki nema að varnirnar hafi verið svona sterkar.


Heimastúlkur áttu auðveldara með að finna körfuna í upphafi 2. leikhluta og þá sérstaklega Kamilah Jackson en hún er nautsterk inni í teig en greinilega ekki í miklu formi og þurfti því nokkuð ört að láta skipta sér út af. Keflavíkurstúlkum óx síðan ásmegin og þegar fjórðungurinn var hálfnaður þá voru þær komnar yfir, 22-24. Allt annar sóknarleikur í gangi – eða að varnirnar ekki eins sterkar. Hálfleiknum lokuðu þær svo 16-5 og leiddu því í hálfleik, 27-40.

Á þessum tíma áttu heimastúlkur í stökustu vandræðum með að koma boltanum upp og Keflavík skoraði mikið af auðveldum körfum en alls skoruðu þær 19 stig eftir tapaða bolta gulra en alls tapaði Grindavík 18 boltum í fyrri hálfleik, en það er allt of mikið. Kanarnir í liðunum algerir yfirburðamenn í fyrri hálfleik, Kamilah komin með 11 stig og 8 fráköst fyrir Grindavík og Daniela Wallen með 22 stig og 7 fráköst.

Grindvíkingar komu sterkari til leiks í seinni hálfleik og komu muninum strax niður fyrir 10 stigin og þegar þriðji var hálfnaður þá munaði bara 6 stigum, 40-46. Bríet Sif sem hafði haft sig hægt í frammi í fyrri hálfleik steig upp og bæði skoraði og mataði liðsfélaga sína. Vörnin hjá Grindavík var auk þess fantagóð og en Keflavík skoraði þó tvo þrista í blálok þriðja og leiddi að honum loknum 51-58.


Grindavík hélt áfram að saxa á forskort gestanna og hefði getað jafnað með vítaskoti eftir að Jón Eðvald fékk tæknivíti fyrir mótmæli við dómarana eftir að hann tók leikhlé. Það fór þó ekki niður og Keflavík bætti aftur í og þegar fjórar mínútur lifðu leiks þá munaði 4 stigum, 67-72. Ólöf Rún setti þá þrist og allt á suðupunkti! Hún setti svo annan og minnkaði muninn 1 stig og Grindavík vann svo boltann aftur og Hrund jafnaði með því að setja annað víta sinna niður. Þarna var þó allur vindur úr heimastúlkum, búnar að missa bæði Ingibjörgu og Bríeti út af með fimm villur og máttu ekki við margnum. Lokatölur 76-80.

Tölfræði leiks

Umfjöllun, viðtöl / Sigurbjörn Daði

Fréttir
- Auglýsing -