spot_img
HomeFréttirGrindavík bikarmeistari í 10. flokki stúlkna

Grindavík bikarmeistari í 10. flokki stúlkna

Grindavík varð bikarmeistari í 10. flokki stúlkna í dag eftir sigur á KR í hörkuspennandi leik. Byrjunarlið Grindvíkinga skipuðu Sigrún Elfa Ágústsdóttir, Viktoría Líf Steinþórsdóttir, Telma Lind Bjarkadóttir, Halla Emilía Garðarsdóttir og Hrund Skúladóttir en byrjunarlið KR skipuðu þær Ástrós Lena Ægisdóttir, Marín Matthildur Jónsdóttir, Margrét Blöndal, Veronika Sesselju-Lárusdóttir og Ásta Júlía Grímsdóttir.

Grindvíkingar fóru að síga fram úr um miðjan fyrsta leikhluta en þá kom Hrund Skúladóttir þeim gulklæddu fjórum stigum yfir í stöðunni 7-3 með fallegum þristi. Grindvíkingar spiluðu þétta vörn og áttu KR-ingar í erfiðleikum í sókninni, en sex af tíu stigum þeirra í leikhlutanum komu af vítalínunni. Þá átti KR í stökustu vandræðum með Hrund Skúladóttur sem skoraði 14 stig fyrir Grindvíkinga í fyrsta leikhluta. Grindavík leiddi með 10 stigum að honum loknum, 20-10.

Vesturbæingar mættu beittari til leiks í öðrum leikhluta, Ásta Júlía Grímsdóttir minnkaði muninn niður í 6 stig þegar hún setti niður annað vítið sitt rétt eftir miðbik leikhlutans og Margrét Blöndal bætti við tveimur stigum í næstu sókn og staðan orðin 24-20. Sigrún Elfa Ágústsdóttir svaraði fyrir Grindavík en næstu sex stig voru Vesturbæinga og staðan orðin jöfn, 26-26 þegar skammt lifði fyrri hálfleiks. Hrund Skúladóttir fékk tvö víti þegar tvær sekúndur voru eftir og setti annað þeirra. Eitt stig skildi því liðin af í hálfleik, staðan 27-26.

KR komst yfir í fyrsta skipti í leiknum í upphafi seinni hálfleiks með tveimur stigum frá Ástu Júlíu Grímsdóttur. Liðin skiptust á að skora næstu mínúturnar. Tvær mikilvægar körfur frá Sigrúnú Elfu í lok þriðja leikhluta virtust ætla að tryggja Grindvíkingum þriggja stiga forystu fyrir lokaleikhlutann en Marín Matthildur Jónsdóttir náði að setja niður tvö stig fyrir KR rétt í þann mund sem klukkan var að renna út. Því munaði 1 stigi á liðunum fyrir lokaleikhlutann. Grindavíkingar héldu forystunni út fjórða leikhluta og tryggðu sér að lokum bikarinn með 4 stig sigri, 46-42, eftir hörkuleik.

Lykilmaður leiksins var leikmaður Grindavíkur, Sigrún Elfa Ágústsdóttir en hún skoraði 22 stig, tók 15 fráköst og stal 3 boltum.

Myndir (Bára Dröfn)

Fréttir
- Auglýsing -