spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaGrindavík á toppinn með baráttusigri á Njarðvík

Grindavík á toppinn með baráttusigri á Njarðvík

Grindavík vann í kvöld öflugan 87-82 sigur á Njarðvík í Subwaydeild karla og færðu þar með Njarðvíkingum sinn fyrsta ósigur í deildinni. Á tíma þurfti að athuga með tímareimina í Ólafi Ólafssyni svo heddið í honum færi ekki, slíkur var hamagangurinn. Dr. Grindavík var 7-15 í þristum og kveikti baráttu um allan völl fyrir sína menn.

Ólafur lauk leik með 25 stig og 7 fráköst en Nicolas Richotti var með 18 stig og 5 fráköst í liði Njarðvíkinga. Með sigrinum í kvöld tyllti Grindavík sér á topp deildarinnar um stund.

Svona hraðsoðið
Gestirnir leiddu 21-22 eftir fyrsta með Fotis á þremur villum og lék hann ekkert fyrir vikið í öðrum leikhluta. Maciej Baginski lék sínar fyrstu mínútur fyrir Njarðvík á vertíðinni og Njarðvík leiddi 43-44 í hálfleik. Ivan með 17 og Travis 11 hjá Grindavík en Veigar 12 hjá Njarðvík og þrír aðrir grænir með 7 í hálfleik.
Í síðari hálfleik skiptust liðin duglega á forystunni. Ólafur Ólafsson smellti í sinn sjöunda þrist og kom Grindavík í 67-65 og þannig stóðu leikar eftir þriðja. Þetta var jafnframt síðasti þristur Ólafs í leiknum. Fjórði var stál í stál, Grindvíkingar komust í 85-82 eftir víti frá Kristni Pálssyni en í næstu sókn steig Dedrick Basile af velli með 10 sekúndur eftir af leiknum og þar með fór möguleiki Njarðvíkinga endanlega á því að koma leiknum í framlengingu. Á lokasprettinum var eitt og annað sem sveiflaðist til í höndum liðanna og hefði sigurinn hæglega geta lent báðu megin en Grindvíkingar stóðu uppi sem sigurvegarar.

Upp upp mín sál…
…Og allt mitt geð… er viðeigandi lýsing á þristum Grindvíkinga í kvöld. Upp fóru þeir og nokkrir frá Ólafi sem voru vel til þess fallnir að viðhalda stemmningunni í herbúðum heimamanna. Grindvíkingar hafa verið að setja þá fleiri og fleiri. Alls 8 í fyrsta leik gegn Þór Akureyri, 10 gegn Val, 12 gegn KR og í kvöld 13 gegn Njarðvík.

Helstu tölur
Ólafur Ólafsson var með 25 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar og Ivan Alcolado 24 stig og 17 fráköst en það kallast tröllatvenna. Þá kom Travis James inn með 14 stig og 5 fráköst. Hjá Njarðvík voru fimm leikmenn með 10 stig eða meira. Nicolas Richotti með 18 stig og 5 fráköst og Veigar Páll Alexandersson með 16 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar. Fotis heldur áfram að sturta niður tvennum en hann var með 15 stig og 12 fráköst en missti smá taktinn við leikinn vegna villuvandræða í fyrri hálfleik.

Bekkirnir og boltarnir
Grindavík fékk 20 stig af bekknum í kvöld frá tveimur leikmönnum en Njarðvíkingar 8 frá tveimur leikmönnum. Þá er vert að geta þess að í síðustu tveimur leikjum hafa Grindvíkingar bara tapað 8 boltum per leik og eru að fara vel með knöttinn þessi dægrin. Þá kannski ekki úr vegi fyrir hlaðvarpara að slæda sér hægt inn í gífurðyrðin gagnvart gulum sem hafa nýverið gætt sér á KR og Njarðvík.

Næst á dagskrá
Næsti leikur Grindvíkinga er á útivelli gegn Tindatsól svo það er ekkert annað en toppslagur í Síkinu þar sem Siggi Þorsteins mætir sínum fyrrum félögum úr Röstinni. Njarðvíkingar halda svo í Vesturbæinn og mæta KR í DHL-Höllinni.

Myndasafn (SBS)

Myndasafn (Ingibergur Þór)
Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -