Þór Þorlákshöfn hefur endurheimt Grétar Inga Erlendsson frá Skallagrím en þetta staðfesti leikmaðurinn við Karfan.is nú í morgun. Grétar tekur því slaginn í Domino´s deildinni í vetur með uppeldisklúbbnum og væntanlega hafa Þorlákshafnarbúar himinn höndum tekið við endurkomuna, einkum og sér í lagi í ljósi brotthvarfs Ragnars Nathanaelssonar til Svíþjóðar.
Verið er að ganga frá málum Grétars við Þór en hann var með 12,6 stig og 7,9 fráköst í 18 leikjum með Skallagrím á síðasta tímabili.
Mikilvægur fengur fyrir Þórsara í teigbaráttunni en þeir sem þekkja til Grétars vita að hann er skæður á báðum endum vallarins, getur skotið fyrir utan og það ansi myndarlega og skartar nokkrum baneitruðum hreyfingum á blokkinni.