Fyrrum leikmaðurinn og ráðgjafinn Jose Colorado birti nýlega úttekt sína á deildum Íslands með tilliti til þess að vera atvinnumaður í þeim. Gerði hann rannsókn á deildunum með viðtölum við núverandi og fyrrum leikmenn í þeim til þess að meðal annars komast að því hver launin væru í hverri deild og hvaða félög borguðu best, en við gagnaöflun segist hann hafa rætt við 17 leikmenn um kaup þeirra og kjör.
Jose sjálfur var leikmaður, en er í dag ráðgjafi fyrir leikmenn sem vilja spila í hinum ýmsu deildum og fræðir hann þá um stöðuna eins og hún er ásamt því að hjálpa þeim að komast á framfæri.
Lægstu laun í öllum deildum segir hann vera í 2. deildinni á Íslandi, en þar sé það allra lægsta sem hann hafi athugað um 142 þúsund krónur á mánuði. Annars segir hann að launin á Íslandi, í öllum deildum séu á milli þess 142 þúsund krónur og 1.278.000 kr. á mánuði, sem er það hæsta sem nokkur leikmaður gaf upp við hann. Algengustu launin í öllum deildum séu þó þarna á bilinu, frá 213 þúsund krónum á mánuði til 497 þúsund króna á mánuði. Launin í efstu deild segir hann eðlilega vera hæst, en þau séu á bilinu 426 þúsund krónur á mánuði til 852 þúsund krónur á mánuði.
Þá fer hann aðeins yfir fríðindi eða önnur laun sem ekki eru útborguð og segir hann lið venjulega láta erlenda leikmenn hafa húsnæði, sjá fyrir samgöngum, mat og borga flugmiða fyrir þá. Í þeim skilningi nefnir hann þó að verðlag á Íslandi sé nokkuð hátt miðað við aðra staði í heiminum og því þurfi að meta kaupauka eins og matarinneignir eða annað slíkt í samræmi við það.
Einnig fer hann yfir landslagið í deildunum og nefnir í þeim skilningi hvaða lið hafa verið sigursælust, hvernig fyrirkomulag þeirra sé og hvaða lið það eru sem leikmenn segi að borgi best, en í þeim flokki eru þrjú félög nefnd á nafn, Tindastóll, Keflavík og Valur.
Í heild segir hann íslensku deildirnar ekki geta keppt í launum við stærstu deildir Evrópu eins og ACB deildina á Spáni, BBL deildina í Þýskalandi eða Serie A á Ítalíu. Þó segir hann að með samanburði við yfir 100 deildir sé Ísland ofarlega fyrir miðju með tilliti til launa erlendra leikmanna og að þau séu nokkuð góð miðað við evrópska mælikvarða.
Greiningu Jose er hægt að lesa í heild hérna