spot_img
HomeFréttirGrátlegt tap Íslands í sextán liða úrslitum á Evrópumótinu í Gdynia

Grátlegt tap Íslands í sextán liða úrslitum á Evrópumótinu í Gdynia

Undir 20 ára karlalið Íslands mátti þola tap í kvöld gegn Belgíu í 16 liða úrslitum Evrópumótsins í Gdynia í Póllandi, 74-73. Liðið er því úr leik í úrslitakeppni mótsins, en næst leika þeir um sæti 9 til 16 á mótinu. Þeir leikir verða liðinu mikilvægir þar sem tvö neðstu liðin munu falla niður í B deild.

Líkt og tölurnar gefa til kynna var leikur kvöldsins nokkuð jafn og spennandi undir lokin, líkt og hann var í raun og veru allan tímann. Alls skiptust liðin í sjö skipti á forystu í honum, þar sem Ísland leiddi mest með 12 stigum á tímabili, en mesta forysta Belgíu var aðeins 5 stig. Undir lokin fékk Ísland nokkur tækifæri til þess að stela sigrinum, en allt kom fyrir ekki.

Atkvæðamestir fyrir Ísland í dag voru Almar Orri Atlason með 19 stig, 5 fráköst, 2 varin skot, Ágúst Goði Kjartansson með 18 stig, 3 stoðsendingar og Tómas Valur Þrastarson með 18 stig, 7 fráköst, 4 stoðsendingar og 3 stolna bolta.

Í fyrsta leik umspils um sæti 9 til 16 á mótinu mun Ísland mæta Serbíu á morgun kl. 13:30.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -