spot_img
HomeFréttirGrátlegt tap í Höllinni

Grátlegt tap í Höllinni

 

Það var rafmögnuð spenna í Laugardalshöllinni þegar að Búlgarir mættu í heimsókn í undankeppni heimsmeistaramótsins. Bæði liðin þurftu nauðsynlega sigur eftir tap í síðustu umferð. Búlgaría tapaði naumlega í fyrsta leik fyrir Finnum 80 – 82 og Ísland tapaði stórt fyrir Tékkum í sömu umferð  89-69. Íslenska liðið hafði endurheimt Bárðardalströllið Tryggva Hlinason sem spilaði ekki gegn Tékkum. Niðurstaðan var grátlegt tap eftir að Ísland var yfir í 38 mínútur, lokatölur 74 – 77.

 

Martin Hermannsson var stigahæstur íslenska liðsins með 21 stig og þá setti Jakob Örn SIgurðarson 18. Þá má líka minnast á þátt Tryggva Hlinasonar sem átti teiginn þær mínútur sem hann spilaði, og varði meðal annars 6 skot. Hjá Búlgaríu var Marinov atkvæðamestur með 18 stig.

 

Gangur leiksins

Ísland byrjaði þennan leik virkilega vel og boltinn fékk að ganga hratt manna á milli. Liðið komst fljótlega í 8-4 en þá tóku Búlgarir við sér og jöfnuðu leikinn í 11 – 11. Þá tók við góður kafli hjá íslenska liðinu sem lokaði leikhlutanum 21 – 13 með menn eins og Martin Hermannsson í fínu stuði sem setti 10 stig í leikhlutanum, Tryggvi Hlinason var einnig eins og kóngur í ríki sínu inni í teignum, varði 4 skot og breytti mörgum öðrum. Leikmenn voru að taka skotin sín á fyrsta tempói en voru ekki hikandi eins og var oft tilfellið í leiknum gegn Tékklandi.

 

Ísland hélt áfram uppteknum hætti í 2. leikhluta og spiluðu grimma vörn sem að Búlgarir áttu erfitt með að sjá við og sóknarlega vaknaði Jakob Sigurðarson sem setti 10 stig í leikhlutanum. Það var þó ákveðið jafnræði með liðunum sem skiptust á körfum, sérstaklega í krafti þess að Búlgarir voru komnir snemma í skotrétt og það hægði vel á leiknum, en bætti við villum á lykilmenn. Bæði Martin og Tryggvi komnir með 3 villur í hálfleik. Staðan í hálfleik 43-35.

 

Seinni hálfleikur byrjaði svolítið eins og 2. Leikhluti endaði, hægur bolti og Búlgarir söxuðu jafnt og þétt á forskotið, þarna voru leikmenn íslands að fara illa að ráði sínu með boltann og voru að tapa boltum virkilega klaufalega, mestmegnið með því að einfaldlega kasta boltanum útaf. Menn virtust þó ranka aðeins við sér undir lok leikhlutans sem lauk með jafntefli og munurinn ennþá 8 stig, 61-53.

 

4. leikhluti hófst með þristi frá Búlgörum en þá tók vörnin hjá íslenska liðinu virkilega við sér, menn voru að berjast um alla bolta og taka fráköst, það gekk þó ekki nægilega vel að skora og lentu menn oft í vandræðum sóknarlega. Craig ákvað að skella í mikinn bakvarðabolta til þess að ná smá skriði í sóknarleikinn með 4 bakverði inná og Kristófer Acox í fimmunni, en það gekk ekki sem skildi enda teigurinn ekki vel passaður. Búlgarir gengu á lagið og náðu að komast yfir 67-66 þegar að um 2 mínútur voru eftir af leiknum. Í lokin reyndust Búlgarir sterkari og kláruðu leikinn af vítalínunni, grátlegt tap staðreynd.

 

 

Tölfræðin lýgur ekki

Það fór verulega illa með möguleika Íslands að vera ekki nægilega góðir að passa boltann. 17 tapaðir boltar gegn aðeins 8 hjá Búlgörum eyðilagði það að íslenska liðið skaut boltanum mikið betur í dag heldur en gestirnir. Virkilega dýrt að láta Búlgari taka 70 skot í leiknum gegn aðeins 50 skotum íslenska liðsins. Sjaldséður munur á skotum og það er nálægt því að vera ómögulegt að vinna upp svona mun, jafnvel með góðri skotnýtingu.

 

 

Kynslóðaskipti?

Það var virkilega gaman að sjá hversu góðir ungu leikmennirnir hjá liðinu eru orðnir, Martin, Kristófer Haukur, Tryggvi og Kári áttu allir flotta spretti í leiknum og það var gaman að sjá traustið sem þeir fengu. Allavega framan af. Þegar að leikurinn fór að jafnast þá voru það samt kempurnar sem spiluðu í lokin. Logi, Jakob og Hlynur spiluðu flestar mínúturnar í fjórða leikhluta og það er spurning hvort að kynslóðaskiptin séu alveg komin í gegn.

 

 

Hvar var Tryggvi?

Eftir að hafa spilað 3 glimrandi leikhluta var einkennilegt að sjá hversu lítið Tryggvi Hlinason spilaði í 4ða leikhluta. Hann sá ekki völlinn fyrr en alveg í lokin og það sást alveg á vörninni. Búlgarir áttu fullauðvelt með að komast upp að körfunni í 4ða leikhluta og undirritaður setur stórt spurningamerki við þessa ákvörðun þjálfarans sem spilaði á tímabili með 4 bakverði með Kristófer Acox í miðherjastöðunni. Það sést að Tryggvi er nú þegar orðinn einn af allra mikilvægustu leikmönnum liðsins.

 

 

Framhaldið

Tveir leikir og tvö töp niðurstaðan í þessari landsleikjahrinu. Þetta er hola sem verður erfitt að grafa sig uppúr og liðið verður að sýna meira ef þeir ætla sér að fara alla leið á heimsmeistaramótið. Næstu leikir eru í febrúar og það einfaldlega verður að ná í betri úrslit til þess að eiga möguleika. 

 

 

Tölfræði leiksins

 

 

Umfjöllun Sigurður Orri Kristjánsson
Mynd Davíð Eldur

Fréttir
- Auglýsing -