spot_img
HomeBikarkeppniGrannaslagur í úrslitum VÍS bikarkeppninnar

Grannaslagur í úrslitum VÍS bikarkeppninnar

Grindavík lagði Þór Akureyri í Smáranum í kvöld í seinni undanúrslitaleik VÍS bikarkeppni kvenna.

Það verður því Grindavík sem fer í úrslitaleikinn komandi laugardag til þess að mæta Njarðvík, en þær tryggðu sig áfram í úrslitaleikinn með sigri gegn Hamar/Þór fyrr í kvöld.

Fyrir leik kvöldsins höfðu liðin í tvígang mæst í deildinni á tímabilinu. Þór Akureyri hafði sigur í báðum leikjunum, með 10 stigum heima á á Akureyri í október og með 20 stigum í janúar síðastliðnum. Leikur kvöldsins að sjálfsögðu spilaður í Smáranum, sem hefur verið heimavöllur Grindavíkur síðasta rúma árið, eða síðan félagið þurfti að flýja eldsumbrot in á Reykjanesi.

Staða Þórs Akureyri og Grindavíkur nokkuð ólík í Bónus deildinni, þar sem Þór Akureyri er í 3. sæti efri hluta deildarinnar með 13 sigra á tímabilinu á meðan Grindavík er í 4. sæti neðri hlutans með aðeins 7 sigra eftir fyrstu 21 umferð deildarinnar.

Það var Þór sem hóf leik kvöldsins mun betur. Leiða lengst af í fyrsta fjórðung með 4 til 6 stigum, en undi lok fjórðungsins nær Grindavík að jafna leikinn og komast yfir. Staðan eftir fyrstu 10 mínúturnar, 22-18 fyrir Grindavík. Undir lok fyrri hálfleiks nær Grindavík svo að láta kné fylgja kviði. Mikið til vegna þess þær ná á löngum köflum að stoppa varnarlega, en einnig eru Daisha, Hulda og Ólöf Rún að eiga flottan leik sóknarlega. Munurinn 11 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 52-41.

Stigahæst fyrir Þór í fyrri hálfleiknum var Natalia Lalic með 12 stig á meðan Daisha Bradford var komin með 12 stig fyrir Grindavík.

Þórsarar ná að bíta í skjaldarrendur í upphafi seinni hálfleiksins ná sterku áhlaupi og jafna leikinn þegar um þrjár mínútur eru eftir af þriðja. Líkt og Grindavík í fyrri hálfleiknum var það mikið til komið til vegna sterks varnarleiks, en á þessum fyrstu sjö mínútum leyfa þær aðeins tvær körfur. Grindavík heldur þó forskoti inn í lokaleikhlutann, 63-59.

Í þeim fjórða virðist Grindavík vera með ágætistök á leiknum þó Þórsliðið sé ekki langt undan, munurinn 7 stig þegar 5 mínútur eru eftir, 76-69. Grindavík gerir þó afar vel á lokamínútunum, eru duglegar að koma sér á línuna og halda fjarlægð sinni að mestu frá Þór. Niðurstaðan að lokum nokkuð sterkur sigur Grindavíkur, 92-80.

Atkvæðamest fyrir Þór Akureyri í leiknum var Madison Sutton með 19 stig, 16 fráköst og 15 stoðsendingar. Henni næst var Natalia Lalic með 15 stig og 3 fráköst.

Fyrir Grindavík var Daisha Bradford atkvæðamest með 21 stig, 6 fráköst og 8 stoðsendingar. Þá bættu Isabella Ósk Sigurðardóttir við 14 stigum, 8 fráköstum, 3 vörðum skotum og Hulda Björk Ólafsdóttir 21 stigum og 3 fráköstum.

Úrslitaleikur Njarðvíkur og Grindavíkur er kl. 13:30 í Smáranum komandi laugardag.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Gunnar Jónatans)

Fréttir
- Auglýsing -