Hver elskar ekki ÍR-ævintýri? Það er nýtt ævintýri farið af stað í Breiðholtinu. Það er bara rétt að byrja og þrautirnar mun fleiri en þrjár. Liðið hefur leyst 8 þrautir af síðustu 11 af stakri prýði. Borche og Gettóarnir þurfa að hjálpa liðinu til að leysa nokkrar í viðbót svo ævintýrið verði prenthæft og nái inn í úrslitakeppnina.
Þraut kvöldsins birtist skrímslagræn og ógnvænleg í formi liðsins í þriðja sæti. Njarðvíkingar halda þar til útaf fyrir sig en ef vel er að gáð grillir í eitthvað rautt við næsta leiti. Gullborgarskrímslið hefur því heilmikið við stigin 2 að gera rétt eins og heimamenn og mun slá frá sér. Munu drengirnir úr Breiðholtinu hnjóta um græna skrímslið í kvöld eða leysa enn eina þrautina í ævintýraferð sinni?
Kúlan: Marghöfða skrímsl með líkamsparta í flestum skoltum birtist ef litið er í Kúluna þetta kvöldið. Leiðinleg og órómantísk spá Kúlunnar. Höfðin eru 95, líkamspartarnir 84.

Byrjunarlið
ÍR: Falko, Hákon, Koljanin, Kavas, Jukic
Njarðvík: Shabazz, Veigar, Dwayne, Mario, Milka
Gangur leiksins
Milka byrjaði leika á því að skrímslast undir körfunni og smellti tveimur vítum. Hann hélt því áfram út allan leikhlutann, Koljanin réði ekkert við hann einn á einn. Grænu gestirnir voru á útopnu á varnarhelmingi og komust í 0-9. Borche sá sér þann kost vænstan að taka leikhlé í stöðunni 2-13 eftir rúmlega þriggja mínútna leik. ÍR-ingar jöfnuðu sig þó ekki strax á fyrsta höggi skrímslisins og lentu mest 16 undir, 9-25. Breiðhyltingar náðu að klóra aðeins frá sér, einkum með þriggja stiga skotum, og leikar stóðu 20-29 eftir einn. Milka var yfirskrímsl leikhlutans með 12 stig!
Njarðvíkingar byrjuðu aftur betur í öðrum leikhluta, Evans smellti þristi og Super-Mario bætti við tröllatroði örskömmu síðar. ÍR-ingar héldu hins vegar áfram að setja þristana og fóru þeir Jörgensen og Kavas fremstir í flokki ævintýrapilta. Um miðjan leikhlutann var munurinn kominn niður í 5 stig, 40-45. Það var minna skorað næstu mínúturnar en Hákon Örn jafnaði leika með þristi í 51-51 rétt fyrir pásuna og í fyrsta skipti jafnt síðan í 0-0! Milka og Falko höfðu sett 15 stig hvor og bæði lið að skjóta vel, ÍR 9/13 í þristum, gestirnir 5/12.
Milka endurtók leikinn frá því í byrjun leiks og setti fyrstu 2 stig seinni hálfleiks af línunni. Breiðhyltingar áttu hins vegar næstu 3 mínúturnar eða svo, komust mest 7 yfir í stöðunni 60-53 og skrímslið virtist vera að missa móðinn. Sú var þó ekki raunin, marghöfða Njarðvíkingar bitu með öllum skoltum og voru aftur komnir yfir áður en þriðji leikhluti var allur, 71-73, frábær bardagi í gangi!
Liðin skiptust á körfum fyrstu mínúturnar í fjórða. Þegar 6 mínútur lifðu leiks höfðu þeir grænu 5 stiga forskot, 79-84 og Borche tók leikhlé. Það blés trú í ævintýrapilta, Kavas jafnaði skömmu síðar með þristi og Falko sýndi áhorfendum einhverja svakalegustu snúninga í kringum körfuna sem undirritaður hefur séð og kom ÍR-ingum yfir, 88-86, enn 2:50 eftir. Shabazz kom sér á línuna mínútu síðar eða svo og Super-Mario hamraði sína menn í forystuna skömmu síðar, 88-90 og 1 mínúta eftir af leiknum. Kavas átti sæmilega þriggja stiga skottilraun til að binda mögulega jákvæðan endi á þessa þraut ævintýrisins en það vildi ekki niður. Shabazz gerði svo gott sem út um leikinn með þristi þegar 20 sekúndur voru eftir, staðan 88-93. ÍR-ingar þurftu nú á kraftaverki að halda og þó þau eigi sér oft stað í ævintýrunum bólaði ekki á því að þessu sinni. Lokatölur 91-95 sigur Njarðvíkinga í frábærum körfuboltaleik.

Menn leiksins
Jacob Falko var alveg rosalegur í kvöld, setti 34 stig, tók 8 fráköst og gaf 9 stoðsendingar! Kavas bætti við 21 stigi og tók 5 fráköst.
Shabazz skaut mjög vel í leiknum, endaði með 26 stig og tók 11 fráköst. Milka var sannkallað yfirskrímsl í kvöld, var mest áberandi í byrjun en endaði með 21 stig, tók 7 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.
Kjarninn
Eru Njarðvíkingar skrímslið sem læðist? Eftir þennan frábæra útisigur á ÍR-ingum sem eru í miðri ævintýraför er þriðja sætið nánast örugglega þeirra. Undirritaður sér í það minnsta fyrir sér svakalega rimmu Njarðvíkinga við Stjörnuna eða Tindastól í undanúrslitum í kortunum.
ÍR-ævintýrinu er ekki endilega lokið þrátt fyrir ósigur í kvöld. Þær eru margar þrautirnar í svona ævintýri og þú leysir ekki allar. Næsti áfangastaður er úrslitakeppnin, þar heldur ævintýrið vonandi áfram fyrir Breiðhyltinga og sagan verður færð á pappír ef vel gengur, jafnvel þó það endi ekki alveg með bikarlyftingum.
Myndasafn (Gunnar Jónatans)