Valur og Breiðablik áttust við í Origohöllinni. Óhætt er að segja að staða þeirra í deildinni eru ansi ólík. Valskonur að berjast í toppbaráttunni á meðan Blikakonur eru að ströggla við botninn. Leikurinn fór eins og við var búist með öruggum sigri Valskvenna 102 – 59.
Leikurinn byrjaði frekar rólega, jafnræði með á liðum, Valur þó aðeins með undirtökin. En þegar Anna Soffía setti niður stemmingsþrist fyrir Blikana, var eins og Valur hafi aðeins vaknað. Komust í 15:9, þegar Blikar tóku leikhlé. Valskonur voru samt ekkert á því að hleypa Blikunum inn í leikinn aftur og tóku öll völd og endaði fyrsti leikhluti 31-13.
Áfram héldu Valskonum engin bönd, þær virtust skora að vild og gátu þær farið ansi djúpt á bekkinn og flestar ef ekki allar skiluðu góðu framlagi. Til dæmis átti Elísabet Thelma afbraðgsgóða innkomu. Staðan í hálfleik 55-27.
Ef einhver hélt að Valskonur ætluðu að slaka eitthvað á í seinni hálfleik, með 28 stiga forskot, þá var það misskilningur. Þær gáfu bara í, komust ítrekað inn í sendingar Blikana eða stálu af þeim boltanum. Þegar þriðja leikhluta lauk, var Valur með 37 stiga forskot, 83-46.
Það sem eftir lifði leiks voru Blikar í því að missa boltann og Valskonur að skora. Frekar mikill losaragangur enda leikurinn þannig lagað séð búinn fyrir löngu. En bæði lið reyndu samt að spila körfubolta. Leikar enduðu þó með mjög öruggum sigri Vals, 102 – 59.
Stighæst hjá Val var Hallveig með 16 stig, annars dreifðist stigaskorið vel á allt liðið. Síðan voru turnarnir tveir Ásta Júlía og Hildur Björg með algjöra yfirburði í fráköstunum.
Hjá Blikum var Sanja líflegust, með 17 stig.
Bæði þessi lið eru úr leik í bikarkeppninni og eiga því næst leik 18. janúar, Valskonur kíkja í heimsókn til Hauka á meðan Breiðablik heimsækja Grindavík.
Myndasafn (væntanlegt)