Valur lagði Breiðablik í kvöld í opnunarleik Subway deildar kvenna, 84-46.
Fyrir leik
Liðin bæði að sjálfsögðu bæði farið í gegnum nokkrar breytingar í leikmönnum og á þjálfaraliði. Yngvi Gunnlaugsson hafði tekið við sem þjálfari Blika af Ívari Ásgrímssyni, en hjá Val var aðstoðarþjálfarinn Berglind Gunnarsdóttir horfin á braut fyrir nýjan bandarískan leikmann liðsins Kiana Johnson. Þá var það ljóst fyrir leik kvöldsins að nýr bandarískur leikmaður Blika Sabrina Haines hafði ekki náð að verða sér úti um leikheimild, svo að hún var í borgaralegum klæðum.
Gangur leiks
Óhætt er að segja að heimakonur í Val hafi byrjað leikinn betur. Ná mest 9 stiga forystu í fyrsta leikhlutanum, en eru 7 á undan þegar hann er á enda, 19-12. Heimakonur láta svo kné fylgja kviði í öðrum leikhlutanum, ná mest 24 stiga forystu undir lok fyrri hálfleiksins, en Blikar gera vel í að saxa aðeins á það áður en fjórðungurinn er á enda. Staðan 41-25 þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik.
Kiana Johnson atkvæðamest fyrir Val í fyrri hálfleiknum með 19 stig á meðan að Sanja Orozovic var með 12 stig fyrir Blika.
Segja má að Valur hafi farið langleiðina með að tryggja sér sigurinn í upphafi seinni hálfleiks. Bæta enn við forystu sína í þriðja leikhlutanum og er 21 stigi yfir fyrir lokaleikhlutann, 54-33. Þrýsta fætinum enn frekar á bensíngjöfina í fjórða leikhlutanum og vinna leikinn að lokum með 38 stigum, 84-46.
Tölfræðin lýgur ekki
Breiðablik tapaði 29 boltum í leik kvöldsins á móti aðeins 12 boltum töpuðum hjá Val.
Atkvæðamestar
Atkvæðamest fyrir Val í leiknum var Kiana Johnson með 23 stig, 5 fráköst, 5 stoðsendingar og 7 stolna bolta. Fyrir Blika var Isabella Ósk Sigurðardóttir atkvæðamest með 8 stig, 13 fráköst og 5 stolna bolta.
Hvað svo?
Bæði eiga liðin leik næst þann 28. september. Valur heimsækir Hauka í Ólafssal á meðan að Breiðablik fær Keflavík í heimsókn í Smárann.