spot_img
HomeFréttirGöngutúr í garðinum fyrir Stjörnuna gegn Snæfell

Göngutúr í garðinum fyrir Stjörnuna gegn Snæfell

Hólmarar mættu galvaskir en nokkuð brotnir til leiks í Garðabæinn í kvöld þar sem Stjarnan tók á móti þeim. Hólmarar eru kurteisir og voru ekki með neina gestastæla, í raun of litla því þeir leyfði Stjörnunni að vaða yfir sig á grútskítugum skónum. Til að gera langa sögu stutta endaði leikurinn með stórsigri Stjörnunnar.

 

Snæfell varð fyrir blóðtöku í vikunni þegar ljóst var að Sigurður Þorvaldsson yrði frá til áramóta vegna meiðsla, einnig er Óli Ragnar Alexandersson meiddur og spilaði ekki í kvöld. Mannekla gestanna var svo mikil að aðstoðarþjálfari liðsins Gunnlaugur Smárason var á skýrslu, en hann hefur ekkert spilað með liðinu síðan 2011. Hjá heimamönnum var Tómas Þórður óvænt á skýrslu en búist var við að hann yrði lengur frá. Daði Lár var ekki með Stjörnunni í kvöld en að öðru leyti var liðið fullskipað.

 

Varnarleikur Snæfells var algjörlega fjarverandi í fyrsta leikhluta. Stjarnan var með tuttugu stig eftir fimm mínútur og fékk Zo Coleman að leika lausum hala í sókn liðsins. Sóknarlega komst Snæfell ágætlega frá upphafinu en munurinn varð fljótlega mikill og brekka Snæfells því full há. Stjarnan skoraði hvorki fleiri né færri en 37 stig í fyrsta leikhlutanum gegn 20 gestanna.

 

Stjarnan fékk myndarlegt framlag af bekknum í upphafi annars leikhluta. Sæmundur, Magnús og Kristinn settu skotin sín auk þess sem vörn Stjörnunnar hertist til muna. Sá merki atburður gerðist svo í öðrum leikhluta að hinn 49 ára gamli Baldur Þorleifsson setti sín fyrstu stig í deildinni í vetur, frábær árangur hjá þessum síunga hólmara. Þríeykið Tómas Heiðar, Justin og Coleman voru frábærir í fyrri hálfleik, með 43 stig samanlagt og voru illviðráðanlegir. Þegar liðin gengu til búningsklefa í hálfleik var staðan 62-34 og ekkert annað en Stjörnusigur í kortunum.

Ingi Þór þjálfari Snæfells hélt langa hálfleiksræðu því lið Snæfells kom aftur á völlinn þegar hálf mínúta var þangað til seinni hálfleikur átti hefjast. Ræðan kveikti aðeins í sóknarleik Snæfells en vörnin var áfram í bölvuðu basli. Það má samt ekki taka það af Stjörnunni að sóknarleikur þeirra í dag var til hreinnar og beinnar fyrirmyndar. Boltinn gekk frábærlega á milli manna, liðsheildin mikil og lítið um einstaklingsframtak. Leikurinn var búinn í þriðja leikhluta og fóru liðin að spila á lægri hraða. Stjarnan hafði á endanum mjög auðveldan 109-73 stiga sigur á Snæfell.

 

Lykillinn að sigri Stjörnunnar var að þeir lokuðu vel á Sherrod Wright sem endaði með „bara“ 29 stig en hann þurfti að hafa mikið fyrir þeim öllum. Lið Snæfells má ekki við að missa tvo byrjunarliðsleikmenn í meiðsli því þeir eru nógu þunnskipaðir fyrir. Eins mikil rómantík og það er að hafa nærri fimmtugan leikmann í liðinu sínu þá segir það alla söguna um þetta Snæfells lið að hann spili nærri 10 mínútur.

 

Justin Shouse var stórkostlegur í þessum leik, 28 stig, 8 fráköst og einungis 34 ár á bakinu. Stjarnan fékk framlag frá öllum í liðinu og skóp það helst þennan stóra sigur. Hjá Snæfell var Sherrod Wright stigahæstur með 29 stig en á eftir honum kom Austin Bracey með 16, hann tók aftur á móti 30 skot og hitti úr níu. Mörg af þessum skotum voru ótímabær og fullkomlega galin, Snæfell verður að fá meira útúr leikmanni sem tekur svo mörg skot.

 

Stjarnan heldur áfram sinni rússíbanareið og víst er að stöðugleiki er efst á jólagjafalistanum í Garðabænum þessi jólin. Snæfell aftur á móti hefur nú tapað tvem leikjum í röð og gætu átt erfiðar vikur framundan ef meiðslin halda áfram að hrjá þá

 

Tölfræði leiksins

Viðtöl eftir leik

 

Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson

Myndir / Tomasz Kolodziejski

Fréttir
- Auglýsing -