Golden State Warriors sigurðu Los Angeles Lakers í nótt 77-111 og settu þar með met yfir lengsta taplausa gengi í upphafi leiktíðar í NBA deildinni. Warriors hafa nú sigrað 16 leiki og ekki tapað neinum. Ótrúlegur árangur hjá þessu magnaða liði.
Warriors virðast óstöðvandi í leik sínum þetta tímabilið og er allt útlit fyrir að 72-10 met 1995-1996 Chicago Bulls liðsins sé í hættu.
Það vita allir að Golden State liðið getur skorað. Ekki nóg með að geta skorað heldur er liðið ákaflega skilvirkt í sínum sóknarleik og leiðir deildina með 1,12 stig per sókn, sem er langt umfram önnur lið. Warriors eru að setja niður um 12 þrista í leik og nýtingin hjá þeim hreint út sagt ótrúleg eða vel yfir 40% fyrir allt liðið. Það er heldur ekki einn blettur á vellinum þar sem liðið er ekki að hitta yfir 40%.
Það er vegar ekki aðeins sóknarleikurinn sem er framúrskarandi. Warriors eru með 5. besta varnarliðið í NBA deildinni og lætur andstæðingum sínum aðeins eftir um 0,97 stig per sókn. Liðið spilar framúrskarandi varnarleik við þriggja stiga línuna og leyfa undir 6 þrista í leik sem er það langminnsta í deildinni. Þeir skora semsagt 37,5 stig frá þriggja stiga línunni en fá á sig aðeins 17,7 þaðan.
Það er engum blöðum um það að fletta að árangur liðsins fylgir í kjölfarið á allra besta tímabili sem Stephen Curry hefur spilað á sínum unga NBA ferli. Hann hafði fyrir þennan leik í nótt skorað 74 þrista á þessari leiktíð en það er meira en tvö NBA LIÐ hafa skorað í vetur – Brooklyn Nets og Minnesota Timberwolves. Aðeins 62% af þessum þristum koma eftir stoðsendingu sem þýðir að 38% af þriggja stiga körfum hans eru frá færum sem hann skapar sér sjálfur. Til samanburðar skapar Klay Thompson aðeins 3% af sínum þristum sjálfur.
Ekki nóg með það að vera banvæn skytta fyrir utan þriggja stiga línunna virðist hann vera búinn að ná góðum tökum á því að skora inni í teignum. Curry er einn skilvirkasti sóknarmaður deildarinnar innan teigs, ásamt risum eins og DeAndre Jordan og Hassan Whiteside. Hann nýtir 68% færa sinna innan teigs til þess að skora.
Hvernig á að vera hægt að dekka þennan mann og hvernig á að vera hægt að stöðva þetta lið?
Heimild: FiveThirtyEight.com