Golden State Warriors tryggðu sér 105-97 sigur á Cleveland Cavaliers í sjötta leik NBA úrslitanna og þar með fjórða titil félagsins frá upphafi. Warriors höfðu fram að þessu ekki tryggt sér titilinn í heil 40 ár og aðeins einu sinni áður eftir að félagið flutti til Kaliforníu.
Það var heldur tíðindalítill leikur sem liðin buðu okkur upp á, þrátt fyrir hetjuævintýri JR Smith í lokin, en Cavaliers virtust einfaldlega ekki hafa orku í meira. Warriors hins vegar búnir að finna fjölina og gáfu hvergi eftir. Warriors hafa sigrað alla leiki sína í vetur þar sem þeir hafa náð 15 stiga forystu eða meira og leikurinn í gær var engin undantekning þar á.
Andre Iguodala var valinn verðmætasti leikmaður úrslitanna, þrátt fyrir að byrja ekki einn einasta leik í úrslitakeppninni fyrr en síðustu þrjá leikina í úrslitunum. Iguodala var mikil innspýtting í leik Warriors þegar liðið var komið í slæma stöðu, 2-1 undir eftir þrjá leiki.
Stephen Curry og Andre Iguodala leiddu Warriors í stigaskori með 25 stig hvor. Draymond Green bætti við hressandi þrennu með 16 stig, 11 fráköst og 10 stoðsendingar. LeBron James leiddi sína menn með 32 stig, 18 fráköst og 9 stoðsendingar. Timofey Mozgov var betri en enginn með 17 stig og JR Smith fór á flug í 4. hluta og endaði með 19 stig, þar af risastór þristur sem kveikti vonarglóð í Cavaliers rétt fyrir lok leiks.
Ekki slæm frammistaða hjá Steve Kerr, sem tók við þjálfarastöðu Warriors fyrir þetta tímabil, að landa þeim stóra í fyrstu tilraun.