Fjölnir tók á móti Ármanni í 1. deild kvenna í fyrri leik tvíhöfðans sem fram fór í Dalhúsum í kvöld. Sigruðu heimakonur leikinn örugglega en lokatölur voru 99-71 fyrir Fjölni.
Þrátt fyrir góðan leik hjá Ármenningum þá var Fjölnir einfaldlega betri aðilinn í kvöld. Eftir að hafa lent undir í upphafi leiks náði Fjölnir fljótt forystunni, jók hana jafnt og þétt og leiddi með 19 stigum í hálfleik. Stíf pressuvörn Fjölnis í 3. leikhluta skilaði þeim mörgum stigum úr hraðaupphlaupum og sigruðu þær fjórðunginn með 17 stigum, 30-13. Þær leiddu 88-52 fyrir lokafjórðunginn og sigurinn því nánast tryggður. Fjölnir landaði að lokum öruggum 28 stiga sigri, 99-71 eftir að hafa fengið margar tilraunir til að rjúfa 100-stiga múrinn án árangurs.
Tölfræðin
Fjölniskonur hittu vel úr skotunum sínum í fyrri hálfleik og var liðið með 72% nýtingu í tveggja stiga skotum (18/25) og 57% nýtingu í þriggja stiga skotum (4/7) í hálfleik. Þær enduðu leikinn með 59% nýtingu í tveggja stiga skotum og 31% nýtingu í þristum og voru með töluvert betri nýtingu en Ármann.
Ármenningar mættu ákveðnar til leiks og sóttu fráköstin grimmt, þær sigruðu frákastabaráttuna með 45 fráköstum á móti 40 fráköstum Fjölnis. Ármenningar tóku 22 sóknarfráköst og skoruðu 18 stig í kjölfar þeirra.
Atkvæðamestu leikmenn
Margrét Ósk Einarsdóttir var atkvæðamest Fjölnis í kvöld með 20 stig og 4 stolna bolta á þeim tæplega 19 mínútum sem hún spilaði. Þá skoraði Berglind Karen Ingvarsdóttir 9 stig og gaf 9 stoðsendingar fyrir Fjölni, McCalle Feller skoraði 15 stig og tók 5 fráköst og Erla Sif Kristinsdóttir skoraði 14 stig.
Hjá Ármanni var Sigrún Guðný Karlsdóttir atkvæðamest með 29 stig og 6 fráköst, Arndís Þóra Þórisdóttir bætti við 12 stigum og 6 stoðsendingum og Stefanía Ósk Ólafsdóttir og Kristín María Matthíasdóttir skoruðu 10 stig hvor.
Kjarninn
Með sigrinum í kvöld tryggði Fjölnir sér 2. sætið í 1. deild kvenna og heimavallaréttinn í 4 liða úrslitum úrslitakeppninnar þar sem þær mæta Þór Akureyri. Fjölnir og Þór eiga eftir að mætast í tvígang í deildinni áður en að úrslitakeppninni kemur og fara þeir leikir fram um næstu helgi.
Ármenningar leita enn að sínum fyrsta sigri í deildinni í vetur en þær taka á móti ÍR á föstudaginn kemur.