Mikil og góð stemning var í Fjósinu í Borgarnesi í kvöld þegar Vesturlandsslagur Skallagríms og Snæfells í Dominos deild karla fór fram fyrir fullu húsi. Þakið ætlaði að rifna af húsinu í kynningu fyrir leik þar sem boðið var upp á ljósashow, reykblástur og dúndrandi músík og ljóst að stuðningsmenn beggja liða ætluðu að láta vel í sér heyra í leiknum sem sýndur var í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Leikurinn fór jafnt af stað. Snæfellingar náðu þó yfirhöndinni fljótt og komust fimm stigum yfir 7:12. Pétur Ingvarsson tók þá leikhlé og skerpti á leikstíl Borgnesinga sem mættu sprækari til leiks fyrir vikið. Heimamenn hófu að saxa á forskot Hólmara og komust loks yfir 15:13 með góðum körfum frá Tracey Smith Jr. og Sigtryggi Arnari Björnssyni. Liðin skiptust síðan á körfum uns fyrsta leikhluta lauk, en lokaorðið átti Tracey Smith Jr. sem kom heimamönnum einu stigi yfir með síðastu körfu leikhlutans, 19:18.
Skallagrímsmenn mætu grimmir til annars leikhluta og voru í miklum ham sem Hólmarar réðu lítið við. Eftir fjögurra mínútna leik voru heimamenn komnir 12 stigum yfir, 34:22 og útlit fyrir að þeir væru að stinga gestina af. Hólmarar bitu þó í skjaldarrendur með góðum körfum en þó héldur Borgnesingar þeim frá sér með góðri hittni fyrir utan þriggja stiga línuna. Um miðbik leikhlutans skráði Páll Axel Vilbergsson sig svo á spjöld íslensku körfuboltasögunnar þegar hann skoraði þrist númer 1000 á ferlinum þegar hann kom Skallagrími í 37:28. Hólmarar unnu sig þó í rólegheitum aftur inn í leikinn með góðri skotnýtingu gegn svæðisvörn heimamanna. Munaði þar um góða skotnýtingu hjá reynsluboltunum Sigurði Þorvaldssyni og Pálma Frey Sigurgeirssyni ásamt Austin Magnus Bracey. Heimamenn héldu þó forystunni þegar gengið var til hálfleiks 48:44.
Leikurinn var í járnum í þriðja leikhluta og var fljótlega ljóst að leikurinn yrði spennandi alveg fram í blálokin. Borgnesingar voru hins vegar ívið betri framan og komust mest sjö stigum yfir þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir, 63:56. Þá skelltu Snæfellingar í lás og náðu 0-7 áhlaupi áður en þriðji leikhluti varð allur. Staðan fyrir lokaleikhlutann jöfn 63:63.
Eflaust hafa margir áhorfendur verið byrjaðir að naga á sér neglurnar af spenningi þegar lokaleikhlutinn hófst. Sigtryggur Arnar heimamönnum yfir með þriggja stiga körfu 66:63. Austin Magnus Bracey svaraði á móti með körfu og vítaskoti að auki og svo þriggja stiga körfu eftir að Skallagrímsmenn klikkuður á skoti í sókn sinni. Snæfell var því komið yfir 63:66 í fyrsta sinn síðan í upphafsleikhlutanum. Hólmarar létu síðan kné fylgja kviði á næstu mínútum og náðu að endingu sex stiga forystu með góðum körfum frá Austin Magnus Bracey og Pálma Frey Sigurgeirssyni 68:74. Pétur Ingvarsson tók þá leikhlé og las sínum mönnum pistillinn. Sá lestur gaf Borgnesingum byr undir báða vængi og hófu þeir að saxa á gestina með þeim afleiðingum að þeir jöfnuðu leikinn 78:78 þegar tæpar þrjár og hálf mínúta var eftir.
Lokamínúturnar urðu æsispennandi og hefur mörgum áhorfendum í Fjósinu og heima í stofu eflaust þótt nóg um. Austin Magnus Bracey kom Hólmurum í 78:80 þegar tæprar þrjár mínút voru eftir. Liðin skiptust síðan á sóknum en varnir beggja héldu. Brotið var síðan á Skallagrímsmanninum Agli Egilssyni í skoti þegar innan við tvær mínútur voru eftir. Egill nýtti bæði vítin og jafnaði leikinn 80:80. Sigurður Þorvaldsson átti næstu körfu fyrir Snæfell með góðu skoti 80:82, en aftur svaraði Egill, nú með þriggja stiga körfu. Staðan því 83:82 og tæp mínúta eftir. Þá skoraði Bandaríkjamaðurinn William Henry Nelson í liði Snæfells körfu sem sennilega tryggir honum áframhaldandi veru í Snæfellsliðinu, en hann þótt fremur ósannfærandi í þessum leik. Nelson kom Hólmurum einu stigi yfir 83:84. Sigtryggur Arnar Björnsson klikkaði úr sniðskoti í næstu sókn Borgnesinga. Í kjölfarið sá Austin Bracey, einn besti maður vallarins í kvöld, sér leik á borði og kom gestunum í 83:86 og einungis 13 sekúndur eftir. Skallagrímsmenn fengu möguleika á að jafna en sóknarkerfi þeirra tryggði þeim þó ekki ákjósanlegt skottækifæri og geigaði erfitt þriggja stiga skot Páls Axels til að jafna leikinn. Heimamenn brutu á William Henry Nelson í kjölfarið sem fór beint á vítalínuna, enda Hólmarar komnir í bónus. Hann reyndist öryggið uppmálað á vítalínunni og tryggði gestunum fimm stiga sigur 83:88.
Sigur Hólmara í þessum 37 Vesturlandsslag í úrvalsdeild frá upphafi var þeim afar sætur og dýrmætur fyrir deildarkeppnina framundan. Þeir léku vel gegn svæðisvörn heimamanna og voru bestu menn liðsins þeir Sigurður Þorvaldssson, Pálmi Freyr Sigurgeirsson og Austin Magnus Bracey. Stefán Karel Torfason var einnig drjúgur á blokkinni. William Henry Nelson steig upp á réttum tíma í blálokin en þarf þó að girða sig í brók ef hann vill halda sæti sínu í Snæfellsliðinu.
Því miður þurftu heimamenn að bíta í hið súra og bitra tapepli í þriðja skipti í röð á tímabilinu. Líkt og í síðasta heimaleik gegn Keflvíkingum var liðið hársbreidd frá sigri, en með smá heppni á lokamínútunum hefði sigurinn lent þeirra megin. Góð teikn voru hins vegar á lofti í spilamennsku liðsins og þarf lítið að gerast til þess að liðið ná vopnum sínum á þann máta að það fari að landa sigrum. Þeir þurfa þó að bíða eftir fyrsta sigrinum enn um sinn.
Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells var að vonum sáttur með sigurinn í samtali við karfan.is eftir leik: „Þetta var bara járn í járn, Vesturlandsslagur af bestu gerð held ég. Ég hafði trú á mínum mönnum og var feginn að vorum ekki meira á eftir Skallagrími framan af miðað við það hvernig við hittum,“ sagði Ingi sem kvaðst ánægður með að sínir menn hafi haldið haus og landað tveimur mikilvægum stigum. „Nú er bara að safni krafti fyrir fimmtudaginn á móti gríðarlega sterku Stjörnuliði,“ sagði hann að lokum.
Páll Axel Vilbergsson var hins vegar svekktur í bragði eftir leik. „Það er því miður ekki nóg að leggja sig fram og spila þokkalegan leik. Það er alltaf hægt að taka eitthvað jákvætt og neikvætt úr öllum leikjum, en það sem upp úr stendur er annað hvort tap eða sigur og því miður var það tap í dag,“ sagði Páll Axel sem náði því merkilega afreki að skora sinn 1000 þrist í úrvalsdeildinni í leiknum, fyrstur Íslendinga. „Þetta er svo sem engin sérstök tilfinning. Vitaskuld þótti mér vænt um þegar Borgnesingar heiðruðu mig þegar ég setti fyrra metið hér um árið, en þegar öllu er á botninn hvolft snýst þetta allt um sigur eða töp. Vissulega hefði verið gaman að ná þessum áfanga í sigurleik, en af því að það varð tapleikur er þetta ekki eins skemmtilegt.“
Liðin fá stutta hvíld fyrir næstu umferð sem fram fer á fimmtudaginn. Þá fær Snæfell Stjörnuna í heimsókn í Stykkishólm á meðan Borgnesingar halda suður í Hafnarfjörð til að leika gegn Haukum.
Mynd/ Ómar Örn Ragnarsson
Umfjöllun/ Skallagrímur.is