Bikarkeppni kvenna er loksins farin af stað, annað en í deildinni er hver leikur upp á líf og dauða þar sem lið hafa einungis eitt tækifæri á að halda sinni baráttu um bikarinn áfram. Í dag mættust lið Stjörnunnar og KR í Garðabæ, Stjarnan mætti tilbúin til leiks og var markmið liðsins skýrt. Stjarnan var mætt til þess að vinna, þær voru einbeittar, staðráðnar og tilbúnar að leggja sitt á mörkum til þess að sigla þessum sigri heim, sem þær gerðu.
Stjarnan mættu frá fyrstu mínútu einbeittar, þær spiluðu hörku vörn og frábæran sóknarleik. Þær voru að þvinga KR-inga í mistök hvað eftir annað í vörninni, Stjarnan gaf eftir stundum í vörninni en þær voru fljótar að snúa því við. KR var í vandræðum í upphafi leiks að ráða við Stjörnuna, Stjarnan vann vel á vörn KR-inga og átti svör við öllum breytingum sem KR gerði. Stjarnan var yfir mest allan tímann, KR gerði hvað eftir annað tilraun til þess að snúa leiknum við en þær voru alls ekki með hausinn á réttum stað. Það vantaði mikið upp á hjá KR-ingum í dag og ríkti pirringur hjá leikmönnum sem haftraði þeim.
Stjarnan var ekki að spila sinn besta leik í vetur en þær voru að gera nákvæmlega það sem þurfti til þess að vinna þennan leik. Þær spiluðu vel saman, fundu hvor aðra á vellinum, og fögnuðu öllum litlu sigrunum í leiknum. Það skein af þeim öryggið og gleðin. Stjarnan var yfir í öllum helstu tölfræði þáttum, þær voru að skjóta fleiri skotum en KR og að hitta betur. Þær hirtu fleiri fráköst og sendu fleiri stoðsendingar, það sést helst þar hversu sterk liðsheildin þeirra var í þessum leik.
Stjarnan hefur góðan leiðtoga og fyrirmynd sem þær geta alltaf leitað til, hún er tilbúin að gera allt fyrir þetta lið og gerir leikmennina í kringum sig betri og þó svo að Danielle hafi verið með flest stig skoruð, flest fráköst og flestar stoðsendingar þá hefði hún ekki náð þeim árangri án liðsfélaga sinna. Stjarnan í heild, sem eitt lið með eitt markmið var sín eigin hetja í dag. Þær voru ein heild frá upphafi til enda og gerðu það sem þurfti til þess að sigra KR.
Stjarnan heldur því áfram í átta liða úrslit, ef þær ætla að halda áfram svona þá eiga þær góðan möguleika að koma sér í höllina.
Umfjöllun / Regína Ösp