Leikurinn sem fram fór í Ljónagryfjunni í kvöld var um margt athyglisverður en þar stóð körfuknattleiksdeild UMFN að styrktarleik til handa Líknarsjóði Njarðvíkurkirkna. Um 700.000 krónur söfnuðust, vel var mætt á leikinn sem reyndist æsispennandi þar sem atvinnumennirnir og kempurnar höfðu betur gegn meistaraflokki Njarðvíkinga. Teitur Örlygsson hafði sigur í þriggja stiga keppninni og útvarpsmaðurinn Þórður Helgi Þórðarson, einnig þekktur sem Doddi litli, sá um að stýra veislunni.
Þriggja stiga körfunum rigndi í leiknum, lokatölur reyndust 116-122 úrvalsliði Njarðvíkinga í vil. Á meðal leikmanna úrvalsliðsins voru Logi Gunnarsson og Jeb Ivey. Jóhann Árni Ólafsson lét þristum rigna og Guðmundur Jónsson átti nokkrar snarpar rispur með bróður sínum Ólafi Helga. Ísak Tómasson, Teitur Örlygsson og Friðrik Ragnarsson komu einnig við sögu sem og Páll Kristinsson, Brenton Birmingham, Egill Jónasson, Daníel Guðmundsson og Rúnar Ingi Erlingsson. Ekki amalegur hópur sem skartaði reynslunni á lokasprettinum fram yfir ungan leikmannahóp Njarðvíkinga.
Sigmundur Már Herbertsson og Kristján E. Möller dæmdu leikinn og Sigmundur sem hér í eina tíð þótti skæð þriggja stiga skytta reyndi fyrir sér í þriggja stiga keppninni en varð, ásamt öðrum keppendum, að lúta í lægra haldi fyrir Teiti Örlygssyni sem að eigin sögn hefur ekki tapað þriggja stiga keppni til þessa. Jón Júlíus Árnason fyrrum leikmaður UMFN og tippklúbburinn Ljónin keypti síðasta sætið í þriggja stiga keppninni en sætið fór á 50.000 kr.
Eins og áður segir söfnuðust um 700.000 krónur til styrktar Líknarsjóði Njarðvíkurkirkna og þétt var setið á áhorfendabekkjum Ljónagryfjunnar. Séra Baldur Rafn Sigurðsson prestur Njarðvíkurkirkna var hæstánægður með framtakið en hann hefur verið prestur Njarðvíkurkirkna síðustu tvo áratugi.
Jólaandinn sveif yfir vötnum í Ljónagryfjunni og góður rómur gerður að þessu framtaki þeirra Njarðvíkinga.
Mynd/ [email protected] – Teitur sýndi gamalkunna takta í Ljónagryfjunni í kvöld og varð þriggja stiga kóngur. Leikurinn var mikil og góð skemmtun og heimamenn gerðu að því róm að mögulega væri svona styrktarleikur á þessum árstíma kominn til að vera.