Ísland lagði Ungverjaland í Laugardalshöllinni í kvöld í fyrsta leik sínum í undankeppni EuroBasket 2025. Íslenska liðið er því komið með einn sigur í riðlinum líkt og Ítalía, en þeir lögðu Tyrkland heima í Pesaro í kvöld.
Fyrir leiks
Leikur kvöldsins að sjálfsögðu sá fyrsti fyrir bæði lið í þessari undankeppni EuroBasket 2025, en liðin eru ásamt Tyrklandi og Ítalíu í riðil þar sem efstu þrjú sætin tryggja farmiða á lokamótið. Ungverjaland er að sjálfsögðu gamalt stórveldi í evrópskum körfubolta sem hefur í 16 skipti verið með á lokamóti EuroBasket, en þeir unnu það 1955, voru í öðru sæti 1953 og því þriðja árið 1946. Lítið hefur þó gengið hjá liðinu á þessari öld, fyrir utan eitt lokamót sem þeir komust á árið 2017.
Ísland hefur ekki verið með Ungverjalandi í riðil í þeim mótum sem liðið hefur spilað á síðustu árum.Síðasta viðureign þeirra var þó síðasta sumar, æfingaleikur úti í Ungverjalandi sem Ísland vann, en það var þó kannski lítið að marka hann fyrir leik kvöldsins.
Byrjunarlið
Martin Hermannsson, Elvar Már Friðriksson, Jón Axel Guðmundsson, Kristófer Acox, Tryggvi Snær Hlinason.
Gangur leiks
Eftir nokkuð hæga byrjun sóknarlega, þar sem ungverska liðið setur nokkra þrista á hinum enda vallarins, nær íslenska liðið áttum um miðjan fyrsta leikhluta. Erum 3-5 stigum undir allan fyrri hluta fyrsta fjórðungs, en ná svo að komast í forystu undir lok leikhlutans áður en þeir missa gestina aftur framúr, 16-19 eftir fyrstu 10 mínúturnar.
Leikurinn er svo í nokkru jafnvægi í öðrum leikhlutanum, þar sem Ungverjaland er þó iðulega körfu á undan eða tveimur á undan. Fyrir utan stöku sóknarfrákast sem Ísland gaf undir lok fyrri hálfleiks var varnarleikur þeirra með ágætum. Sóknarlega áttu þeir þó nokkuð erfitt, þar sem hvorki þristarnir voru að detta, né voru þeir að komast á hringinn. Munurinn 4 stig þegar liðin halda til búningsherbergja, 33-37.
Stigahæstir fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum voru Tryggvi Snær, Martin og Kristinn Páls, allir með 8 stig. Sóknarlega var stigaframlag Ungverjalands gífurlega jafnt í þessum fyrri hálfleik, þar sem 9 af 12 leikmönnum þeirra voru komnir á blað.
Íslenska liðið fer illa af stað í seinni hálfleiknum. Eiga enn erfitt með að verjast boltaflæði og þristum á varnarhelmingi vallarins og gengur verr, ef eitthvað, að koma boltanum í körfuna á hinum enda vallarins. Munurinn 9 stig þegar 5 mínútur eru eftir af þriðja, 38-47. Heimamenn gera ágætlega að stöðva blæðinguna í framhaldinu og halda þessu í leik inn í lokaleikhlutann, 49-51.
Með stórum körfum frá Elvari, Tryggva og Kristni kemst Ísland í sína mestu forystu í leiknum í upphafi þess fjórða, 57-52. Undir lokin fer liðið svo nokkuð vel að ráði sínu, setja nokkra þrista í viðbót og á lokasekúndunum eru það nokkur víti frá Martin Hermannssyni sem ísa leikinn, 70-65.
Atkvæðamestir
Bestur í liði Íslands í kvöld var Tryggvi Snær Hlinason með 14 stig og 11 fráköst. Honum næstir voru Elvar Már Friðriksson með 13 stig, 5 fráköst, 8 stoðsendingar og Martin Hermannsson með 17 stig og 4 fráköst. Fyrir ungverska liðið var það Gyorgy Goloman sem dró vagninn með 12 stigum og 8 fráköstum.
Kjarninn
Ísland gerði virkilega vel að halda í við Ungverjaland í þrjá leikhluta í kvöld. Lítið virtist vera ganga hjá liðinu, en með elju náðu þeir að setja sig í færi til þess að stela sigrinum í lokin. Sem og þeir gerðu. Að hafa náð að vinna leikinn að lokum með fimm stigum skiptir einnig máli. Þar sem ef önnur úrslit í riðlinum eiga eftir að vera eftir bókinni verður það mögulega forskotið sem Ísland þarf að verja í útileiknum í Ungverjalandi í næst síðasta leik riðlakeppninnar á næsta ári.
Hvað svo?
Seinni leikur þessa fyrsta glugga keppninnar er komandi sunnudag 25. ágúst gegn Tyrklandi í Istanbúl.
Myndasöfn (væntanleg)