U18 ára landslið stúlkna lék á móti Noregi í sínum öðrum leik á NM 2016 í Kisakallio í Finnlandi í dag. Íslenska liðið mætti tilbúið til leiks og leiddi nánast frá fyrstu mínútu. Þær lönduðu að lokum öruggum 42 stiga sigri, 83-41 og hafa því sigrað báða leiki sína á mótinu til þessa.
Sylvía Rún opnaði leikinn fyrir Ísland eftir fallega stoðsendingu frá Emelíu Ósk en Norðmenn svöruðu strax í næstu sókn. Í stöðunni 4-4 komu tvær körfur frá Íslendingum í röð og eftir það sáu Norðmenn ekki til sólar. Íslensku stelpurnar spiluðu vel saman í vörninni á upphafsmínútunum og voru duglegar að detta í hjálpina þegar á þurfti að halda. Þær voru áræðnar í sókninni og sóttu vel að körfunni. Stíf pressuvörn endaði í 8 stolnum boltum hjá íslenska liðinu í fyrsta leikhluta og 10 töpuðum boltum hjá því norska. Ísland leiddi eftir fyrsta leikhluta 25-12, en Norðmenn skoruðu einungis 3 stig á síðustu 5 mínútum leikhlutans.
Íslendingar byrjuðu annan leikhluta af sama krafti og þær enduðu þann fyrsta. Þær héldu áfram að spila þétta vörn og komu fyrstu stig Norðmanna ekki fyrr en eftir að tæpar fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum. Norðmenn náðu að bíta frá sér áður en flautað var til hálfleiks, á sama tíma og Íslendingar duttu í að senda erfiðar sendingar og missa boltann. Ísland leiddi í hálfleik með 12 stigum, 40-28, eftir að hafa komist mest 21 stigi yfir í fjórðungnum. Íslenska liðið fór úr því að vera með 3 tapaða bolta í fyrsta leikhluta yfir í 9 tapaða bolta í öðrum leikhluta.
Stigahæstar í hálfleik voru Sylvía Rún með 11 stig, 4 fráköst og 3 stolna bolta, Emelía Ósk með 10 stig, 4 stoðsendingar og 3 fráköst og Dagbjört Dögg með 8 stig.
Þriðji leikhluti var eign Íslendinga sem héldu Norðmönnum í 6 stigum í fjórðungnum. Sterk vörn íslensku stúlknanna gerði Norðmönnum erfitt um vik í sóknarleiknum sem oft enduðu í sóknir sínar í nauðskotum eða komust hreinlega ekki yfir miðju og niðurstaðan 14 tapaðir boltar hjá þeim rauðklæddu í fjórðungnum. Íslendingar því með nokkuð þægilega forystu fyrir lokafjórðunginn, 58-34.
Íslenska liðið hélt uppteknum hætti í fjórða leikhluta og innsiglaði öruggan 42 stiga sigur, 83-41. Stigaskor dreifðist á liðið og komust nánast allir leikmenn á blað. Firnasterkur varnarleikur, barátta og góð liðsheild lagði grunn að sigri í dag og virtust allir leikmenn liðsins tilbúnir til að takast á við verkefni dagsins.