Fyrr í sumar var stofnaður hópurinn Útikörfuboltavellir á Íslandi á samfélagsmiðlinum Facebook. Samkvæmt lýsingu/tilmælum hópsins var áætlunin að meðlimir hópsins myndu deila upplýsingum og myndum af öllum þeim útivöllum sem hópsmeðlimir rækjust á í ferðalögum sínum. Voru viðtökurnar nokkuð góðar og þegar að þetta er skrifað eru tæplega 2000 meðlimir í hópnum sem hafa deilt lýsingum og myndum af hundruðum valla.
Það var svo í gær að Jakob Ísleifsson deildi með hópnum að sett hafi verið sér síða með bæði myndum og upplýsingum um útikörfur Íslands á slóðina utivellir.is. Ásamt því er hægt að finna kort með staðsetningu allra þeirra valla sem merktir hafa verið á Íslandskortið. Samkvæmt tilkynningu munu þó ekki allir vellir vera komnir inn á síðuna, en að hún verði uppfærð á næstu vikum.
Færslu Jakobs má svo sjá í heild hér fyrir neðan:
“Sæl öll
Ég fékk hugmynd fyrir tveimur árum síðan að kortleggja alla körfuboltavelli á Íslandi þegar ég var að leita að völlum til að fara með krakkana mín út í körfubolta. Þegar ég sá að Einar Karl stofnaði þessa frábæru síðu hafði ég samband við hann og fékk leyfi til að nýta það sem kæmi inn á hana. Í kjölfarið ákvað að setja upp vefsíðu með þeim völlum sem ég var byrjaður að safna og þeim sem komu hingað inn. Ég vona að síðan styðji við hans markmið um að styrkja körfuboltan og þrýsta á stjórnvöld um betri velli útum allt land.
Síðan er nú kominn live á slóðinni https://www.utivellir.is Hún mun í upphafi aðeins innihalda körfuboltavelli en síðar mun ég bæta við öðrum tegundum af völlum eins og fótboltavöllum, hjólabrettagörðum, leikvöllum o.s.frv. Ég mun bæta öllum völlum sem koma hingað inn inná síðuna ásamt þeim sem ég finn sjálfur.
Síðan er á algjöru byrjenda stigi en vonandi getið þið nýtt ykkur hana strax. Á henni er kort þar sem auðvelt er að sjá hvar vellirnir eru og hverjir eru nálægt núverandi staðsetningu. Ég mun síðan setja inn uppfærslur á næstu vikum. Þið megið endilega senda mér ábendingar um nýja virkni og ef það er eitthvað sem mætti betur fara.
Að lokum vona ég að allir noti síðuna sem mest og hjálpi til við að finna alla skemmtilega útivelli á Íslandi.
Áfram íþróttir!
Jakob“