Haukastelpur drógust gegn Tindastól í 16-liða bikarúrslitum kvenna í hádeginu í dag. Þóra Kristín Jónsdóttir, leikstjórnandi Hauka, var á staðnum til að ræða dráttinn og gengi liðsins hennar.
“Já, mér líst bara ágætlega á ferð á Sauðárkrók. Okkur hefur ekki gengið nægilega vel í bikarnum undanfarin ár. Vonandi er þetta árið sem að við girðum okkur í brók og tökum þetta.”
Það hlýtur samt að vera erfitt að mæta rétt stemmdar í leik sem þennan gegn liði sem er deild fyrir neðan Hauka. Haukar hafa verið ósannfærandi hingað til á meðan að Tindastóll hefur einmitt verið að mæta reiðubúin í leiki. Hefur
“Já, það er alveg erfitt að mæta í svona leik, sérstaklega gegn 1. deildar liði. Erfitt að gíra sig upp í svona leiki en við eigum alveg að geta þetta og vitum hvað þarf til að vinna.”
Bandarískur leikmaður Hauka, Seairra Barrett, var rekinn eftir að hún átti lágstemmdan leik gegn Snæfell í fimmtu umferð Dominosdeildar kvenna. Verður nýr bandarískur leikmaður kominn fyrir næsta leik í Geysisbikarnum eða jafnvel sjöttu umferð úrvalsdeildarinnar?
“Við erum Kanalausar eins og er, eigum eftir að fá nýjan Kana í landsliðspásunni [10.-18. nóvember]. Við þurfum bara meiri reynslubolta í staðinn fyrir ungan leikmann sem kemur beint úr háskóla og er bara svipuð og hinar sem eru hjá okkur fyrir. Verðum að fá dugnaðarfork sem að getur rifið okkur upp á næsta level.”
Lovísa Björt Henningsdóttir hefur séð um að leiða Hauka hingað til í flestum tölfræðiþáttum. Verður hún ekki að stíga upp sem leiðtogi liðsins í stað þess að bíða eftir að erlendur leikmaður geri það?
“Lovísa Björt er leiðtogi, sérstaklega utan vallar. Mikill peppari. Það vantar einfaldlega flæðið í okkur og við þurfum allar að vera agressívari þannig að Lovísa nái að skila sínu fyrir okkur.”
Þóra Kristín er mínútuhæsti leikmaður liðsins hingað til og það hefur mætt mikið á henni. Hvað þarf hún að bæta til að liðið eigi séns áfram í bikarnum og líka í Dominosdeildinni?
“Ég þarf að vera sókndjarfari og opna betur fyrir liðsfélaga eins og ég hef verið að gera á undanförnum tímabilum og ég verð líka að klára sjálf. Ég festist stundum í því að gefa bara stoðsendingarnar, að vera hjálparinn.”
Það hlýtur að vera ljóst að þær rauðklæddu frá Hafnarfirði hafa ekki efni á að mæta óundirbúnar í útsláttarleik í bikarnum á Sauðárkróki í desember.
“Höfum alls ekki efni á því. Mættum flatar í fyrra og rétt sluppum með skrekkinn gegn Grindavík.”
Haukar sækja Tindastól heim í Geysisbikarnum 2.-7. desember og það kemur þá í ljós hvort að þær séu reiðubúnar að standa undir væntingunum sem gerðar eru til þeirra.