17:58
{mosimage}
(Logi Gunnarsson)
Logi Gunnarsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, er þessa dagana að skoða sín mál en hann féll úr LEB 1 deildinni á Spáni með liði sínu Gijon á síðustu leiktíð. Logi sagði í samtali við Víkurfréttir að forsvarsmenn Gijon vildu halda honum innan sinna raða. Logi er nú kominn aftur á fullt við æfingar eftir langþráð frí en hann kýs helst að afgreiða sín mál sem allra fyrst fyrir næstu leiktíð.
„Þeir voru ánægðir með mig þarna hjá Gijon og vildu semja við mig fyrstan manna en svo féllum við og því langar mig til að kanna hvort ég komist að hjá liði sem er í LEB 1 deildinni,” sagði Logi en umboðsmaður hans hefur einnig verið að þreifa á hlutunum í öðrum löndum. „Mín mál hafa einnig verið kynnt á öðrum vettvangi eins og á Ítalíu, Frakklandi og víðar en aðal málið er að koma mér á framfæri á Spáni og vonandi gerist það sem fyrst. Ég vil ekki láta þessi mál hanga yfir mér í allt sumar en svona er þetta stundum og maður getur ekkert gert,” sagði Logi.
Logi tók sér gott frí frá körfuboltanum eftir frækinn sigur Íslands á Smáþjóðaleikunum en er nú kominn á fullt að nýju og æfir þessa dagna í Vesturbænum, í B sal DHL-Hallarinnar. „Ég hef verið að æfa aðeins með Helga Magnússyni og Brynjari Björnssyni og svo mun Jón Arnór sennilega æfa eitthvað með okkur. Þá er ég einnig að lyfta og í svona klassískum „offseason” æfingum,” sagði Logi sem hefur ekkert fundið fyrir eymslum í öxlinni eftir að hann fór í aðgerð 2003.
„Ég fór þrisvar sinnum úr axlarlið á meðan ég var hjá Giessen í Þýskalandi en fór svo í aðgerð og eftir hana fann ég lítið sem ekkert fyrir öxlinni sem var mjög gott,” en þetta var hægri öxlin sem var að poppa út úr lið hjá Loga sem er skothöndin hans. „Ég verð bara að passa mig á því að halda henni í góðri æfingu,” sagði Logi. Mál Loga skýrast vonandi sem allra fyrst en eins og fram hefur komið vill hann endilega halda áfram á Spáni.