16:22
{mosimage}
Bræðurnir Pétur og Jón Arnar Ingvarssynir munu þann 17. febrúar næstkomandi berjast um Lýsingarbikarinn í körfubolta þegar lið þeirra ÍR og Hamar/Selfoss mætast í úrslitaleik keppninnar í Laugardalshöll. Faðir þeirra og lærimeistari, Ingvar S. Jónsson, heldur með Haukum í bikarúrslitunum og vill síst af öllu gera upp á milli strákanna sinna á þessum stóra degi.
Jón Arnar tók við ÍR þegar Bárður Eyþórsson vék úr starfi en Pétur hefur þjálfað Hamar/Selfoss um árabil. ÍR sló Grindavík út í undanúrslitum en Hamar/Selfoss lagði Keflavík að velli. ÍR og Hamar/Selfoss mættust síðast í bikarúrslitum árið 2001 þar sem ÍR fór með sigur af hólmi 91-83. Bræðurnir Pétur og Jón urðu bikarmeistarar saman með Haukum árið 1996 þegar Haukar burstuðu ÍA í Laugardalshöll 85-58. Faðir þeirra Ingvar lítur svo á að sama hvernig fer þá sé titill kominn í höfn.
,,Ég hef nú ekki lóðsað þeim mikið í þjálfun upp á síðkastið en þeir lærðu mikið í körfu hjá mér,” sagði Ingvar í samtali við Víkurfréttir en hann þjálfaði Hauka um árabil en hætti þjálfun 1994 og starfar nú sem Íþróttafulltrúi Hafnarfjarðar. ,,Ég hef engar áhyggjur af þessum leik því ég verð alltaf sigurvegari,” sagði Ingvar sposkur og sagðist ætla að halda með Haukum í Höllinni en Haukakonur mæta Keflavík í úrslitaleik kvenna.
Hvað finnst pabbanum svo um strákana sína sem þjálfara? ,,Þeir eru báðir miklir keppnismenn en þeir eru á öfugum meiði í þjálfun miðað við hvernig þeir voru sem leikmenn. Pétur var djarfur og kaldur og vildi spila hratt en Hamar/Selfoss spilar rólegan bolta. Jón var þolinmóður og yfirvegaður en er með lið í höndunum sem spilar upp á hraða og dirfsku. Gaman að sjá hvernig þetta hefur snúist við hjá þeim,” sagði Ingvar sem segist ekki kvíða því að bræðrabyltan muni hlaupa illu blóði í fjölskylduboðin fram að úrslitaleiknum. ,,Ég veit ekki hvort þeir muni leita til mín eftir ráðum fyrir leikinn en ég hugsa nú samt að þeir hlusti meira á mig en ég held þeir geri. Ég get enn ráðlagt þeim og fylgist vel með og hef mínar skoðanir á þessu,” sagði Ingvar að lokum og þvertók fyrir að spá um úrslit, sama hvað blaðamaður reyndi að fá hann til þess.
Það verða því ýmsir Haukaþræðir í Höllinni 17. febrúar þar sem Jón og Pétur verða þjálfara í karlaleiknum og svo munu Haukakonur leika til úrslita í kvennaflokki.
Frétt og mynd úr Víkurfréttum í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi. www.vikurfrettir.is