Úrslitakeppni Dominos deildar kvenna hefst í kvöld með einum leik. Karfan mun að sjálfsögðu hita upp fyrir einvígi dagsins með því að birta viðtöl við þjálfara og leikmenn liðanna allra. Við byrjum á Keflavík.
Lið Keflavíkur hefur verið mikið púsl í deildarkeppninni. Mikil meiðsli hafa verið og liðið hefur notað í heildina 22 leikmenn. Þrátt fyrir það endaði liðið í öðru sæti og átti frábært tímabil.
Íslandsmeistararnir fyrir tveimur árum ætla sér væntanlega að gera atlögu að stóra titlinum í ár en gríðarleg breidd og gæði búa í liðinu. Viðbótin sem liðið fékk í Söru Rún í lok tímabilsins var svo gríðarleg og virðist liðið vera búið að ná vopnum sínum rétt fyrir úrslitakeppni.
Fyrsta verkefnið er Stjarnan í undanúrslitunum en liðin hafa háð góða baráttu í vetur sem ætti að gefa fögur fyrirheit. Kvennalið Keflavíkur er einnig með þann magnaða eiginleika að stíga upp og spila að fullri getu þegar lyktin af bikarnum er nærri. Enginn skildi afskrifa þetta Keflavíkurlið.
Leikirnir í einvíginu:
Leikur 1 – 2. apríl: Keflavík – Stjarnan – Blue Höllin
Leikur 2 – 6. apríl: Stjarnan – Keflavík – Mathús Garðarbæjarhöllin
Leikur 3 – 10. apríl: Keflavík – Stjarnan – Blue Höllin
Leikur 4 – 14. apríl: Stjarnan – Keflavík – Mathús Garðarbæjarhöllin
Leikur 5 – 17. apríl: Keflavík – Stjarnan – Blue Höllin
Nánar var kafað ofan í einvígið í Podcast þætti Körfunnar frá því fyrr í vikunni.
Viðtal við Magnús Þór Gunnarsson aðstoðarþjálfara Keflavíkur má finna hér að neðan: (enginn leikmaður Keflavíkur var til viðtals)