spot_img
HomeLandsliðinEuroBasket 2025Gerir Ísland liði Slóvakíu skráveifu á sunnudaginn?

Gerir Ísland liði Slóvakíu skráveifu á sunnudaginn?

Ísland laut í lægra haldi í gær gegn Tyrklandi í Izmit í fimmta leik sínum í undankeppni EuroBasket 2025. Í hinum leik riðils Íslands lagði Slóvakía lið Rúmeníu gríðarlega örugglega í gær, 90-52.

Nú er aðeins einn leikur eftir af undankeppninni hjá Íslandi, en hann er komandi sunnudag 9. febrúar gegn Slóvakíu í Bratislava. Á sama tíma mun Tyrkland mæta liði Rúmeníu í Ploiesti.

Hérna er heimasíða mótsins

Fyrir leiki gærdagsins hafði Tyrkland tryggt sig áfram í riðlinum, en þær hafa unnið alla fimm leiki sína. Í öðru sæti riðilsins er Slóvakía með þrjá sigra og tvö töp. Í þriðja til fjórða sæti eru svo Ísland og Rúmenía með einn sigur og fjögur töp, en sökum innbyrðisviðureignar er Rúmenía í sætinu fyrir ofan.

Möguleikar Íslands á að tryggja sig áfram runnu út í sandinn með tapinu í gær. Aðeins efsta sæti hvers riðils tryggir sæti á lokamótið, en þá munu einnig fara fjögur bestu liðin sem enduðu í öðru sæti síns riðils. Slóvakía á því enn möguleika á að tryggja sig áfram á lokamótið. Til þess að gera það þurfa þær að vinna Ísland í lokaleiknum og helst með sem mestum mun.

Það má því gera ráð fyrir gífurlega erfiðum leik fyrir íslenska liðið á sunnudag, en líkt og Ísland sýndi í nóvember síðastliðnum geta þær átt í fullum tygjum við lið Slóvakíu. Þá vann Slóvakía lið Íslands í Ólafssal, en aðeins með átta stigum, 70-78.

Í sínum öðrum leik fyrir íslenska landsliðið þá átti Danielle Rodriguez stórleik með 29 stigum og 5 fráköstum. Henni næstar í leiknum voru Thelma Dís Ágústsdóttir með 11 stig, 4 stoðsendingar og Kolbrún María Ármannsdóttir með 10 stig og 3 fráköst. Bæði verða Danielle og Thelma með Íslandi á sunnudag, en Kolbrún er fjarri góðu gamni í þessum glugga landsliðsins. Í hennar stað má segja að Sara Rún Hinriksdóttir sé og má vona að hún nái að gera jafn vel á sunnudag líkt og hún gerði gegn Tyrklandi í gær, þar sem hún setti 29 stig og tók 7 fráköst í naumu tapi Íslands.

Ísland mætir Slóvakíu í lokaleik undankeppni EuroBasket 2025 sunnudag 9. febrúar í beinni útsendingu á RÚV 2 kl. 16:50.

Fréttir
- Auglýsing -