Selfyssingar eru á fullu að styrka lið sitt fyrir komandi átök í 1. deild karla. Í morgunsárið tilkynnti félagið að Gerald Robinson hefði skrifað undir samning um að leika með liðinu. Gerald er þekkt stærð á Íslandi en hann hefur leikið með Hetti, Njarðvík, ÍR, Haukum og Sindra.
Tilkynningu Selfoss má sjá hér að neðan:
Gerald Robinson hefur samið við Selfoss um að leika með liðinu næstu tvö árin. Robinson kemur frá Sindra sem hann lék með í 1. deildinni á síðasta tímabili og var besti leikmaður og kjölfestan í liði þeirra Hornfirðinga með rúm 22 stig, 10 fráköst og 22 framlagspunkta að meðaltali í leik. Hann var í hópi bestu leikmanna deildarinnar, í 4. sæti yfir stiga- og frákastahæstu leikmennina.
Robinson á að baki farsælan feril í úrvalsdeildinni hér á landi síðasta áratuginn og spilaði með Haukum, Hetti, Njarðvík og ÍR áður en hann gekk til liðs við Sindra.
Það er auðvitað afar mikilvægt að fá slíkan gæðaleikmann og reynslubolta í hinn unga leikmannahóp Selfoss, þar sem hann mun miðla af reynslu sinni og þekkingu og styrkja alla innviði félagsins.
Við hlökkum til að vinna með Robinson og bjóðum hann velkominn á Selfoss.
Meðfylgjandi mynd er af Robinson í leik í úrlsitakeppninni sl. vor með Sindra gegn Selfossi í Gjánni.