Tæpara mátti það vart standa hjá Hólmurum í tíundu umferðinni þegar þeir lögðu Tindastól eftir framlengdan leik í Síkinu. Sigurinn máttu Snæfellingar ekki síst þakka Quincy Hankins-Cole sem átti mögnuð varnartilþrif um leið og leikurinn var að renna út er hann varði skot frá Maurice Miller og Snæfell vann leikinn 99-100. Quincy Hankins-Cole er Gatorade-leikmaður tíundu umferðar hjá Karfan.is.
Quincy gerði einnig 26 stig í leiknum, tók 11 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Þá var hann með eitt varið skot og það skipti heldur betur sköpum.
Kappinn verður svo á ferðinni með Snæfell í kvöld þegar liðið tekur á móti botnliði Vals í Stykkishólmi.