spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaGarðbæingar gægjast í kústaskápinn

Garðbæingar gægjast í kústaskápinn

Garðbæingar kíktu í Breiðholtið brjálaða í öðrum leik 8-liða úrslitanna í kvöld. Stjarnan fann mögulega sitt gamla form á tímabilinu í fyrsta leiknum í Umhyggjuhöllinni, kláraði dæmið nokkuð örugglega og leiðir 1-0 í einvíginu.

ÍR-ingar hafa ansi margt til að bæta frá því í leik 1. Það er rannsóknarefni hversu lengi ÍR-ingum tókst að hanga inn í fyrsta leiknum þar sem Kavas gat ekki neitt, Jukic tók tæplega þátt í leiknum og Stjörnumenn tóku nánast jafn mikið af sóknarfráköstum og ÍR-liðið af fráköstum í heildina! Fleira mætti svo sannarlega nefna, en getur Borche stillt sína menn nægilega vel svo Breiðhyltingar megi jafna seríuna í kvöld?

Kúlan: ,,Ég neyðist til að hryggja Reykjavíkurstórveldið, og hlutlausa áhorfendur, með þeim fréttum að það mun ekki ganga. Garðbæingar geta farið að opna kústaskápinn, lokatölur verða 85-91 eftir spennandi baráttuleik“.

Byrjunarlið

ÍR: Falko, Hákon, Pryor, Kavas, Jukic

Stjarnan: Ægir, Hilmar, Febres, Orri, Rombley

Gangur leiksins

Það var fín stemmning á nánast fullum pöllunum í Skógarselinu og spenna í loftinu. Í takt við það virtist vera smá skrekkur í leikmönnum og það tók góðar 2 mínútur fyrir liðin að koma fyrstu stigunum á töfluna. ÍR-ingar voru fyrri til, settu fyrstu 5 stigin og leiddu 10-2 eftir 5 mínútna leik. Garðbæingar hittu afar illa í leikhlutanum en að honum loknum var munurinn þó ekki nema 3 stig, 19-16. Undirritaður var með puttann á púlsinum hvað fráköst varðaði af fyrrnefndri ástæðu og þar stóðu leikar 13-13 eftir einn!

Júlíus Orri kom ljónharður inn af bekknum fyrir gestina líkt og í undanförnum leikjum og gerði ljómandi vel. Hvorugt liðið náði nokkru áhlaupi sem heitið gæti og jafnt var á öllum tölum. Hilmar Smári kom Stjörnunni yfir í fyrsta sinn í leiknum með nettum þristi þegar um 2 mínútur voru til pásunnar í stöðunni 37-38. Í hálfleik stóðu leikar 42-42, allt jafnt og sömuleiðis í fráköstum eða 20-20! Einnig voru Falko og Ægir jafnir með 12 stig fyrir sín lið.

Allt var áfram í járnum fyrstu mínútur seinni hálfleiks þar til Jukic krækti sér í ansi óskynsamlega villu sem var hans þriðja í leiknum um miðbik þriðja leikhlutans. Hann braut þá á Ægi á miðjum vellinum og það skilaði 2 stigum þar sem gestirnir voru komnir í bónus. Bekkurinn hjá ÍR færði svo Ægi 1 stig í viðbót með tæknivillu. Stjörnumenn voru þá komnir 50-57 yfir og róðurinn að þyngjast fyrir Breiðhyltinga. Þeir náðu hins vegar að svara fyrir sig í framhaldinu með 6 stigum í röð og minnkuðu muninn í 1 stig, staðan 56-57. Þarna voru um 4 mínútur eftir af þriðja, Gettóarnir farnir að syngja um ástríðuna og peningana og Baldur blés til leikhlés! Það virtist skila sínu en Jukic lagði einnig sitt á vogarskálarnar fyrir gestina með annarri klaufavillu á Jase í þriggja stiga skoti. Stjörnupiltar stungu sér framúr og leiddu með 10 fyrir lokaleikhlutann, 61-71.

Heimamenn áttu fyrstu 4 stigin í fjórða en komust ekki nær í bili. Orri reisti múrinn fræga við með snöggum fimm stigum og enn voru gestirnir 10 yfir, 68-78, þegar fimm mínútur lifðu leiks. Ástríðan hélt ÍR-ingum við efnið og liðið barðist áfram af krafti. Hákon minnkaði muninn í 5 stig þegar góðar 2 mínútur voru eftir og Jörgensen setti mínútu síðar niður sinn eina þrist í leiknum og minnkaði muninn í 4 stig, 80-84. Ægir og Hilmar svöruðu hins vegar að bragði fyrir gestina og komu í veg fyrir almennilega spennu á lokasekúndunum. Heimamenn neyddust til að fara í villuleikinn misvinsæla síðustu sekúndurnar en það er veik von með Ægi á línunni! Niðurstaðan varð 82-90 sigur Garðbæinga í miklum baráttuleik þar sem aldrei var í raun mikill munur þó lokasekúndurnar urðu ekki æsilegar. 

Menn leiksins

Falko var eins og oftast atkvæðamestur ÍR-inga með 25 stig, 5 fráköst og 8 stoðsendingar. Kavas og Koljanin komu næstir með 14 stig hvor og 8 og 9 fráköst. 

Stjörnumenn hafa átt marga liðsheildarsigra í vetur og þessi var einn af þeim þar sem allt byrjunarliðið setti yfir 10 stig. Eins og svo oft áður var Ægir þó allra fremstur sinna manna, setti 27 stig,  tók 5 fráköst og gaf 7 stoðsendingar sem er auðvitað stórkostleg frammistaða!

Kjarninn

Stjörnumenn geta nú farið að tína til sópana! Auðvitað er hættulegt að ætla að vinna þriðja leikinn fyrirfram og verkefnið hjá Garðbæingum einkum það að hugsa sig ekki alveg strax inn í undanúrslitin – það þarf að klára dæmið á föstudagskvöldið næstkomandi. 

Undirritaður veit ekkert um sýn Baldurs Þórs þjálfara liðsins á þriðja leikinn þar sem erfitt reyndist að ná í hann eftir leik. Lesendur geta mögulega hugsað um einhverja frasa á eigin spýtur.

Ýmislegt var betra hjá ÍR-ingum í kvöld m.v. fyrsta leik. Frákastabaráttan tapaðist að vísu en aðeins með 7 fráköstum, 38-45. Leikmenn ÍR-inga lögðu allt í leikinn, börðust af miklum krafti en það dugði einfaldlega ekki í kvöld. Borche veitti að sjálfsögðu viðtal eftir leik og benti á mikinn mun á fjölda villna í leiknum, ÍR-ingar fengu dæmdar á sig 29 villur á móti 15 hjá gestunum! Undirritaður ætlar ekki að tjá sig neitt um það en Borche var mjög ósáttur við dómgæsluna í kvöld. Breiðhyltingar liggja nú 0-2 undir í seríunni, vonin er veik en Borche og félagar ná vonandi að gíra sig upp fyrir þriðja leikinn.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -