Árið 2000 fór þjálfaranámskeið fram í Valencia og hvar sem þú drepur niður fæti á móður jörð er Íslendinga að finna og á þessu tiltekna námskeiði var engin undantekning þar á. Þeir Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells og Ágúst Herbert Guðmundsson voru einmitt staddir á umræddu námskeiði og hittu fyrir Chuck Daly sem gerði garðinn frægan með Detroit Pistons í NBA deildinni.
,,Þetta var magnað þjálfaranámskeið sem innihélt m.a. Ettore Mesina, Chuck Daly og tvo landsliðsþjálfara Spánverja,” sagði Ingi Þór sællar minningar.
Chuck Daly var fæddur í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum árið 1930 og lést árið 2009 úr krabbameini. Daly hóf þjálfaraferil sinn í NBA árið 1981 þegar hann stýrði Cleveland en næsta tímabil á eftir tók hann við Detroit Pistons og stýrði liðinu frá 1983-1992. Tvívegis gerði hann Pistons að NBA meisturum og þá þjálfaði Daly hið margfræga Dream Team sem varð Ólympíumeistari árið 1992. Liðið innhélt kappa á borð við Michael Jordan, Magic Johnson, Larry Bird, Charles Barkley, Scottie Pippen og Karl Malone svo einhverjir séu nefndir.
Mynd/ Ágúst Herbert t.v., Daly fyrir miðju og Ingi Þór t.h.