Körfuboltaveislan í Smáranum í kvöld hófst snemma og lauk seint. Valsmenn byrjuðu með öruggum sigri á Blikapiltum en svo var skipt um lið, líka heimalið, og Grindvíkingar fengu það verkefni að koma á jafnvægi í húsinu gegn Stjörnugestum.
Sveiflan hefur verið býsna svipuð hjá liðunum hingað til á tímabilinu. Bæði lið byrjuðu illa, tóku þá á flottan sprett en hafa svo tapað síðustu tveimur leikjum. Það má segja að leikurinn hafi verið baráttan um að ná að snúa örinni upp á við…hvort liðið er líklegra til þess?
Kúlan: Kúlan birti alls konar myndhverfingar, allar viðbjóðslega klénar, ófrumlegar og óprenthæfar. ,,75-91 öruggur Stjörnusigur“ gubbaðist upp úr fúllyndri Kúlunni að lokum!
Byrjunarlið
Grindavík: Basile, Breki, Óli, Mortensen, Kane
Stjarnan: Ægir, Júlli, Kanervo, Ellisor, Kone
Gangur leiksins
Eftir jafnar fyrstu mínútur stungu gestirnir úr Garðabænum nefinu framúr og leiddu 14-20 er fjórðungur lifði af leikhlutanum. Stjörnumenn virkuðu einfaldlega svolítið sterkari, hirtu sóknarfráköst ítrekað eins og þeir hafa lagt í vana sinn og skutu ágætlega fyrir utan. Heimamenn voru hins vegar sjálfum sér verstir, tóku slæmar ákvarðanir sóknarlega og fengu andstæðingana í bakið og náðu ekki varnarfráköstum. Þrátt fyrir þessa upptalningu var aðeins þriggja stiga munur eftir einn fjórðung, 22-25, sem undirritaður skilur eigi svo vel.
Gestirnir byrjuðu betur í öðrum leikhluta og virtust ætla að lalla með stigin 2 í burtu. Þegar tæpar 7 mínútur voru til leikhlés reis 10 stiga múrinn upp eftir þrist frá Addú og Jóhanni var nóg boðið og tók leikhlé í stöðunni 26-36. Kane og Óli náðu að svara fyrir heimamenn en Júlli og Kone fóru fyrir gestunum sem leiddu með 8 í hálfleik, 40-48. Enn var undirritaður gáttaður á því að munurinn hafi ekki verið meiri, Stjörnumenn slátruðu frákastabaráttunni í fyrri hálfleik, voru með 50% þriggja stiga skotnýtingu á móti 9% hjá heimamönnum!
Grindvíkingar kalla ekki allt ömmu sína og mættu ákveðnir til síðari hálfleiks. Frákastabaráttan jafnaðist og heimamenn önduðu ofan í hálsmálið á Stjörnumönnum. Brösulega gekk þó að brúa bilið endanlega og Stjarnan leiddi með örfáum stigum fram í blálok leikhlutans. Basile sá til þess að það hafðist að lokum, staðan 71-69 Grindvíkingum í vil fyrir lokaátökin.
Það var gersamlega allt í járnum allan lokafjórðunginn. Mest komust Grindvíkingar 4 yfir snemma í leikhlutanum, sömuleiðis Stjörnumenn þegar um 3 mínútur voru eftir. Annars skiptust liðin ítrekað á að leiða með heilu einu stigi! Mikilvægi hverrar körfu óx eftir því sem sekúndunum sem eftir voru fækkaði. Basile kom sínum mönnum yfir 85-84 þegar 1:20 var eftir, Ægir svaraði með glæsilegri körfu 20 sekúndum síðar, meistari Óli Óla skoraði svo af harðfylgi undir körfunni og aftur leiddu heimamenn með einu þegar 33 sekúndur voru eftir. Hver annar en Þrumu-Þór sneri þá taflinu aftur við með gersamlega FÁRÁNLEGRI körfu! Goðið var með nokkurn veginn alla Grindavíkurvörnina í andlitinu á sér en með einhvers konar gerningum tókst honum að fleygja boltanum eitthvert upp í loftið…og ekkert nema net! Heimamenn höfðu 14 sekúndur til að hrifsa stigin að lokum í eitt skipti fyrir öll til sín en lokasóknin fór forgörðum. Lokaniðurstaðan eins stigs sigur Stjörnumanna, 87-88 í sannkölluðum 50/50 leik.
Menn leiksins
Ægir Þór var að vanda áberandi hjá Stjörnumönnum, setti 16 stig, tók 4 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Fyrst og fremst ætti þó kannski að nefna galdrastykki hans, síðustu körfu leiksins eða sigurkörfuna. Viðeigandi er að nefna líka Júlíus Orra á nafn hér, drengurinn átti flottan leik í kvöld og það stefnir í hörku tímabil hjá honum.
Kane var atkvæðamestur heimamanna, setti 25 stig, tók 8 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.
Kjarninn
Sigurinn féll Stjörnumegin í kvöld. Segja má að munurinn hafi verið heilt eitt frákast og heilt eitt stig. Arnar er snillingur í því að muna að ósigur kallar ekki á bölmóð og öskur, sigur kallar ekki á taumlausa gleði. Undirritaður nennti ekki að taka viðtöl í kvöld en Arnar hefur án nokkurs vafa tínt til eitt og annað sem hann sá að hjá sínum mönnum í kvöld, t.d. það að tapa frákastabaráttunni með 9 í seinni hálfleik eftir að hafa unnið hana með 10 í fyrri hálfleik. En stigin fara í Garðabæinn og örin vísar nú aftur upp á við og um það snýst leikurinn.
Það er líka algerlega augljóst hvað Jóhann hefði sagt í viðtali eftir leik. Hann hefði talað um 50/50 leik, að hans menn hafi ekki hitt hafið í kvöld og í raun ótrúlegt að Grindvíkingar hafi átt séns í lokin. Jákvæðu punktarnir eru einmitt seiglan sem liðið sýndi, ekki var spilamennskan neitt sérstaklega glæsileg og skotnýtingin fyrir utan hörmuleg eins og fyrr segir. Það er svo augljóst áhyggjuefni fyrir Grindvíkinga að hafa nú tapað þremur leikjum í röð – nú þarf að bíta í skjaldarendur og nýta mótlætið til að brýna sverðin fyrir næsta leik.