Fyrstu deildar lið Hauka heldur áfram að bæta við sig leikmönnum fyrir veturinn. Félagið hefur samið við bakvörðinn Gabríel Sindra Möller um að leika með liðinu á komandi leiktíð.
Gabríel lék á síðasta tímabili með fyrstu deildar meisturum Breiðabliks, en í 16 leikjum með liðinu skilaði hann 10 stigum, 4 fráköstum og 3 stoðsendingum að meðaltali í leik.
Gabríel er að upplagi úr Njarðvík, en þá hefur hann áður einnig leikið fyrir Breiðablik, Hamar, Skallagrím og Gnúpverja. Þá var hann einnig eitt ár í háskólaboltanum í Bandaríkjunum. Hjá Haukum hittir hann fyrir fyrrum þjálfara sinn hjá Gnúpverjum og Hamri, Máté Dalmay.
Haukar hafa samið við marga góða leikmenn fyrir komandi átök í fyrstu deildinni og ljóst er að pressan er orðin einhver á að þetta sterka félag verði aðeins þetta eina tímabil í fyrstu deildinni, en deildarkeppni þeirra fer af stað þann 27. næstkomandi gegn Reyni í Sandgerði.