Hamar hafði í kvöld sinn fyrsta sigur í Domino´s deild kvenna þetta tímabilið þegar KR kom í heimsókn í Frystikistuna í Hveragerði. Lokatölur 59-51 fyrir Hamar í jöfnum og spennandi leik. KR-ingar eru enn án erlends leikmanns en það var Helga Einarsdóttir sem dróg KR vagninn í kvöld með 15 stig og 8 fráköst. Hjá Hamri voru Andrina og Salbjörg báðar með 14 stig og Salbjörg bætti um betur enda með tröllatvennu þar sem hún reif einnig niður 20 fráköst.
„Eins og staðan er í dag var þetta einn af stærstu leikjunum fyrir okkur en stefnan er að fara eins ofarlega og við getum, KR er með hörku lið og gefast ekkert upp þó þær séu kanalausar en með kana verða þær stórhættulegar,“ sagði Hallgrímur Brynjólfsson þjálfari Hamars í samtali við Karfan.is í kvöld.
Hvergerðingar leiddu með 11 stigum í hálfleik, 38-27 og komust svo í 59-51 þegar fjórar mínútur lifðu leiks. Ótrúlegt en satt var ekki skorað stig eftir þetta! Hallgrímur var að vonum kátur með sigurinn og fagnaði því að miðherjinn sinn, Salbjörg Ragna, væri að stíga upp innan liðsins en hún gekk í raðir Hvergerðinga í sumar.
„Það var flott að Dalla vaknaði vel til lífsins og fór að gera hlutina af meiri krafti en áður, flott tvenna hjá henni í kvöld. Andringa meiddist á fingri á æfingu í gær og það var að há henni í leiknum en þær tvær ásamt Þórunni og Katrínu verða fyrirferðamiklar hjá okkur í vetur,“ sagði Hallgrímur og bætti við að nú væri afar mikilvægt fyrir Hvergerðinga að fá fleiri af stað til að leggja sín lóð á vogarskálarnar.
Eftir fjóra tapleiki í röð í Domino´s deildinni, var eitthvað farið að þrengja að liðinu?
„Nei alls ekki, það þjappaði hópnum bara meira saman, ég hef ekki orðið var við neinn pirring hér innanbúðar og formaðurinn hefur enn ekki hótað að reka mig svo þetta lítur bara vel út og mun betur eftir sigurinn í kvöld,“ svaraði Hallgrímur léttur.
Hamar skildi KR eftir á botni deildarinnar með sigrinum í kvöld en framundan er heldur betur ærinn starfi. Næstu fjórir leikir liðsins eru Snæfell, Keflavík, Grindavík og Valur.
„Sigurinn í kvöld gefur meðbyr fyrir þessi átök. Við höfum verið að spila þokkalega í þessum leikjum fyrir utan seinni hálfleikinn gegn Blikum og Valsleikinn en þessi sigur í kvöld hann gefur þetta extra sjálfstraust fyrir leikmennina og það gefur mikið eins og allir vita.“
Næsti leikur KR er röndóttum ekki síður mikilvægur en þá mæta Blikar í heimsókn í DHL-Höllina og þar fá KR-ingar tækifæri til þess að klóra sig af botninum með sigri.