Skallagrímur sigraði í kvöld Geysisbikarinn 2020 eftir sigur á KR í úrslitaleik keppninnar.
Gangur leiksins:
Spennustigið var gríðarlegt í byrjun leiks og voru bæði lið í vandræðum með að setja stig á töfluna. Sem dæmi var staðan 5-5 eftir 6 mínútna leik. Mikið jafnræði var á milli liðanna í fyrri hálfleik og skiptust fimm sinnum liðin á að hafa forystuna. Staðan í hálfeik var 24-27 fyrir Skallagrím og von á æsispennandi seinni háflleik.
Borgnesingar mættu mun sterkari til leiks í seinni hálfleik og sóttu sér tæplega tíu stiga forystu. Flestir í húsinu áttu von á áhlaupi KR til að gera þetta að spennandi lokasprett en allt kom fyrir ekki. Skallagrímur spilaði út leikinn og svaraði aðgerðum KR frábærlega. Lokastaðan 49-66 fyrir Skallagrím sem lyfti fyrsta bikarmeistaratitli félagsins að leik loknum.

Tölfræðin lýgur ekki:
Skallagrímsliðið hitti mun betur í leiknum, ríflega 40% í heildina. Þar af sérlega vel fyrir innan þriggja stiga línuna. KR hinsvegar gat varla hitt sjóinn frá bryggjunni því liðið var með 23% nýtingu þar af tæplega 7% fyrir utan þriggja stiga línuna og voru með tvær þriggja stiga körfur í leiknum.
Kjarninn:
Flestir höfðu búist við sigri KR í kvöld enda sló liðið út handhafa allra titla á Íslandi, Val í undanúrslitum. Mikil orka virðist hafa farið í þann sigur því KR liðið var algjörlega heillum horfið í leik dagsins. KR fékk lítið framlag frá Danielle sem þurfti algjörlega að bera liðið á herðum sér.
Fyrsti titill Skallagríms í 56 ár er því staðreynd en liðið varð Íslandsmeistari árið 1964 síðast. Þetta er því fyrsti bikartitill félagsins frá upphafi og því stór dagur hjá Borgnesingum.


Skallagrímsliðið var gríðarlega einbeitt frá byrjun og spilaði geggjaða vörn. Pressan var engin á Borgnesingum en liðið spilaði virkilega vel í kvöld. Sigurinn var því fullkomlega sanngjarn og Borgnesingar vel að honum komnar. Nokkur ár eru síðan haldið var í þá vegferð að setja af stað samkeppnishæft kvennalið í Borgarnesi og nú er bikarinn kominn í hús. Ekki skemmir fyrir að máttarstólparnir eru heimakonur en liðinu er stýrt af Guðrúnu Ósk Ámundadóttur en systir hennar Sigrún Sjöfn Ámundadóttir er fyrirliði liðsins og hefur farið með því í gegnum súrt og sætt síðustu ár.
Algjörlega frábær árangur hjá Skallagrím en fyrir tímabilið voru flestir á þeirri skoðun að allir titlar myndu falla í skaut Reykjavíkurfélaganna KR og Vals. Það verður því glatt á hjalla í kvöld þegar Þorrablót Skallagríms fer fram og er viðbúið að bikarinn eigi viðkomu þar áður en hann fer í rykfallinn bikarskápinn, sem nú loks fær andlitslyftingu.








Myndasafn (Þorsteinn Eyþórsson)
Viðtöl eftir leikinn: