UMF Samherjar héldu sitt fyrsta fjölliðamót í körfubolta þegar 8. flokkur drengja tók á móti Fjölni B, Njarðvík B og Snæfelli á sínum heimavelli í Íþróttamiðstöðinni á Hrafnagili. Strákarnir lentu í þriðja sæti, unnu tvo og töpuðu einum, rétt eins og Fjölnir B og Njarðvík B, en voru með lakari stigamun úr innbyrðisviðureignum þessara liða.
Fyrsti leikurinn gegn Fjölni B var sögulegur í meira lagi, því þetta var í fyrsta skiptið sem körfuboltaleikur í Íslandsmóti var spilaður í Eyjafjarðarsveit. Það var vel við hæfi að tveir af dáðustu körfuboltadrengjum sveitarinnar, þeir Guðmundur Ævar Oddsson og Óðinn Ásgeirsson, dæmdu leikinn en þeir gerðu síðar garðinn frægan með Þór á Akureyri og fleiri liðum.
Framkvæmd mótsins var í höndum foreldra drengjanna og þjálfarans, Karls Jónssonar, en mótið fór vel fram og gekk eins og í sögu.
Liðsmynd UMF Samherji: Frá vinstri, Benjamín Elí Henriksen, Heiðmar Kári Sveinsson,
Aksels Rojs Eksteins, Gunnlaugur Orri Önnuson, Haukur Skúli Óttarsson,
Sölvi Sigurðarson, Teitur Nolsöe Baldursson, Þórarinn Karl
Hermannsson, Róbert Orri Finnsson og Daði Snær Hlynsson.
Dómarar: Guðmundur Ævar Oddsson og Óðinn Ásgeirsson.
Ritaraborð: Anna Gunnlaugsdóttir, Baldur Benjamínsson, Brynhildur
Bjarnadóttir og Elva Díana Davíðsdóttir.
Yfirlitsmynd: Frá fyrsta Íslandsmótsleiknum, Samherjar – Fjölnir B.
Mynd af bekknum: Kalli þjálfari messar yfir sínum mönnum í leikhléi.