Álftanes hefur samið við Justin James um að leika með liðinu á yfirstandandi tímabili í Bónus deild karla. Staðfestir félagið þetta með fréttatilkynningu í kvöld. Justin mun koma í stað hins bandaríska Andrew Jones sem verið hefur með liðinu það sem af er tímabili.
Justin er 27 ára 201 cm bandarískur bakvörður sem kemur til Álftaness frá Cleveland Charge í þróunardeild NBA deildarinnar. Árið 2019 var hann valinn inn í NBA deildina í annarri umferð nýliðavalsins af Sacramento Kings og á árunum 2019 til 2021 lék hann 72 leiki í deildinni. Síðan þá hefur hann verið á mála hjá liðum í þrónardeild NBA deildarinnar og Metropolitans 92 í Frakklandi. Hann lék þó ekki á síðustu leiktíð þar sem hann var að ná sér góðum eftir ökklameiðsl.
Tilkynning:
Álftnesingar hafa samið við hinn bandaríska Justin James um að leika með liðinu á yfirstandandi leiktíð. Þá hefur Andrew Jones sagt skilið við liðið og hverfur til nýrra verkefna. Félagið óskar honum góðs gengis í framtíðinni!
Justin James er tæplega tveggja metra hár bakvörður sem hefur leikið í Bandaríkjunum og í Frakklandi. James var valinn af Sacramento Kings í nýliðavali NBA-deildarinnar 2019. Hann var í tvö ár hjá Kings og þótti leika af krafti og var annálaður fyrir að vera virkur liðsfélagi. Með Kings lék James 72 leiki og skoraði 3,2 stig í leik. Eftir tvö ár hjá Kings samdi hann við Cleveland Cavaliers og lék eitt tímabil í þróunardeild NBA (G-League) fyrir venslaliðið Cleveland Charge.
James hóf tímabilið 2022 – 2023 í efstu deild Frakklands og lék þar fyrir eitt vinsælasta lið álfunnar Metropolitans 92, en þar var franska stjarnan Victor Wenbanyama í aðalhlutverki. James lék alls 12 leiki í Frakklandi, skoraði tæp 11 stig, tók rúm þrjú fráköst og gaf tæplega þrjár stoðsendingar. James lauk svo því tímabili í G-League en meiddist á ökkla undir lok tímabilsins og sat út síðustu leiktíð á meðan hann náði sér góðum.
Við bjóðum hann velkominn í fegurðina á nesinu!