Skallagrímur hefur samið við þjálfara um að stýra liðinu út tímabilið í Dominos deild kvenna. Biljana Stanković er væntanleg til landsins og er því eftirkona Ara Gunnarssonar sem var látinn fara frá liðinu fyrir viku síðan.
Samkvæmt tilkynningu Skallagríms er Biljana er 44 ára gömul og er frá Serbíu. Hún hefur síðustu ár þjálfað yngri flokka hjá hjá Kris Kros Pancevo í Serbíu og þá hefur hún verið aðstoðarþjálfari hjá yngri kvennalandsliðum Serbíu með frábærum árangri. Hún átti glæsilegan leikmannaferil og á að baki fjölda titla með félagsliðunum sem hún lék með m.a. Hemofarm, Partizan og Radivoj Korać. Þá á hún yfir 100 landsleiki með Serbíu og var fyrirliði liðsins í sjö ár og lék með því á Evrópumóti og Heimsmeistaramóti. Biljana lagði skóna á hilluna fyrir tveimur árum og hefur einbeitt sér að þjálfun síðan og menntað sig í þeim fræðum í heimalandi sínu.
Stankovic verður þriðji þjálfari Skallagríms á árinu 2018 en hennar fyrsti leikur verður gegn Stjörnunni á laugardag. Guðrún Ósk Ámundadóttir stýrði liði Skallagríms í naumu tapi gegn Keflavík í gær.