spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaFyrirliðinn og kóngurinn hækkuðu desíbelin í seinni og hirtu stigin

Fyrirliðinn og kóngurinn hækkuðu desíbelin í seinni og hirtu stigin

16. umferð Subwaydeildarinnar rúllaði af stað í kvöld með 5 leikjum, m.a. með stórleik Álftnesinga og Þórs frá Þorlákshöfn. Þórsarar sitja í 3. sæti með 20 stig en Álftnesingar eru skammt undan, sitja í 5. sæti með 18 stig.

Þórsarar höfðu betur í fyrri viðureign liðanna í Þorlákshöfn, 84-79, svo 6+ stiga sigur yrði fullnaðarsigur fyrir heimamenn á Álftanesi í kvöld. En fyrir það fyrsta er að sjálfsögðu sigur og 2 stig markmið liðanna. Fyrir gestina myndu 2 stig styrkja stöðu þeirra í topp fjórum og skilja nýliðana svolítið eftir fyrir neðan sig í töflunni á meðan sigur fyrir Álftanes eykur vonir liðsins um heimaleikjarétt í a.m.k. fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Kíkjum í Kúluna.

Kúlan: Að þessu sinni birtist snúin og illskiljanlega tölfræðileg gáta í Kúlunni, tölurnar 1 og ½ birtast ítrekað í ýmsu samhengi. Eftir djúpstæða túlkun má sjá að heimamenn munu vinna hálfan sigur, hirða stigin en ekki innbyrðisbaráttuna. 1 stigs sigur Álftnesinga, 84-83 eftir svakalegan leik, er nákvæmlega það sem Kúlan er að gefa til kynna.

Byrjunarlið

Álftanes: Hössi, Dúi, Stipcic, Eysteinn,Wilson

Þór Þ.: Davis, Pruitt, Raggi, Tómas, Semple

Gangur leiksins

Ville og Haukur voru ekki með heimamönnum í kvöld en á móti kom að Giga var mættur á Álftanesið og bætir nánast báða upp í sentimetrum. Gestirnir byrjuðu hins vegar betur í leiknum og settu fyrstu 6 stigin. Heimamenn létu það ekkert slá sig út af laginu og við tók krónísk skotsýning beggja liða, það var bara allt ofaní! Liðin skiptust ítrekað á að komast stiginu yfir en að fyrsta leikhluta loknum leiddu Álftnesingar 28-26.

Heimamenn náðu örlitlum spretti í byrjun annars leikhluta og komust yfir 37-30. Gestirnir svöruðu því með 6 stigum í röð en þá var komið að Cedricksþætti Bowen sem gersamlega logaði og raðaði þristum! Um miðjan leikhlutann hafði hann komið Álftnesingum aftur 7 yfir, 43-36 og Lalli fékk nóg og blés til leikhlés. Þarna voru heimamenn 9/13 í þristum sem er náttúrulega algerlega fáránlegt. Lalli hefur sennilega sagt við sína menn að setja bara líka þrista því það gerðu þeir og aftur allt í járnum í leiknum. Í hálfleik höfðu heimamenn einn þrist í forskot, staðan 53-50.

Kúlan hafði laumað þeirri spá að undirrituðum í hálfleik að von væri á kólnandi veðurfari í seinni hálfleik en Kúlan hafði rangt fyrir sér með það eins og annað. Enn var allt ofaní og allt í járnum, heimamenn þó með litlu tá framar. Aldana kom gestunum yfir í fyrsta sinn í nokkurn tíma með þristi 68-71 og maður hafði á tilfinningunni að leikurinn væri að snúast gestunum í vil. Fotis æsti upp þá tilfinningu með þristi eftir að hafa hirt hvert sóknarfrákastið á fætur öðru seint í leikhlutanum, staðan 70-77. Aldana endaði góðan leikhluta Þórsara með flautuþristi og staðan 70-80 fyrir lokafjórðunginn.

Austanmaðurinn snjalli, Eysteinn Bjarni Ævarsson keyrði heimamenn aftur af stað í byrjun fjórða og henti niður 2 þristum og minnkaði muninn í 78-84. Gestirnir svöruðu hins vegar að bragði og tóku á góðan sprett, settu 9 næstu stig leiksins. Þá voru 6 mínútur eftir, staðan 78-93 og í fyrsta sinn eitthvað sem mætti kalla forskot í leiknum. Kjartan tók eðlilega leikhlé á þessum tímapunkti og reyndi að blása kjarki í sína menn. Álftnesingar klóruðu í bakkann og börðust af krafti, minnkuðu muninn niður í 8 stig í tvígang og náðu muninum niður í 5 stig, 94-99, þegar 45 sekúndur lifðu leiks. Það reyndist hins vegar aðeins of lítið og aðeins of seint, mikilvægur 94-104 sigur Þórsara staðreynd í bráðskemmtilegum leik!

Menn leiksins

Nigel Pruitt var frábær í kvöld, setti 22 stig, var 5/10 í þristum, tók 10 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Annars kom framlag úr öllum áttum hjá Þórsliðinu í kvöld, flottur liðssigur hjá þeim.

Heimamenn þurfa alls ekki að skammast sín fyrir frammistöðuna í kvöld og í raun átti liðið fínan leik. Hörður stóð þó uppúr að þessu sinni, var stigahæstur með 19 stig, gaf 5 stoðsendingar og tók einnig 5 fráköst.

Kjarninn

Við Kjartan vorum sammála um það í spjalli eftir leik að Álftnesingar áttu í raun bara fínan leik í kvöld þrátt fyrir tap. Fátt er hægt að setja út á liðið, menn börðust af krafti og ekki er hægt að kvarta yfir skotnýtingu liðsins, í þristum endaði liðið með 18 stykki í 38 skotum sem er rétt undir 50%. Eins og Kjartan benti á tapaði liðið hins vegar frákastabaráttunni með 10 og það er kannski það sem helst er gagnrýnivert. Eftir ósigurinn hafa Þórsarar stungið Álftnesinga af í bili en deildin er jöfn og vonin um heimaleikjarétt í fyrstu umferð er ekkert alveg út úr myndinni enn.

Eins og fram kemur hér rétt að ofan sem og í inngangi hafa Þórsarar nú 4 stig og innbyrðis á Álftnesinga og liðið hefur styrkt stöðu sína í topp 4. Lalli benti á í viðtali eftir leik að deildin er náttúrulega alveg fáránleg, stutt á milli liða og enn talsvert af stigum eftir í pottinum. Þórsarar hafa sloppið hingað til vel með meiðsli og hafa verið með sama mannskap nú í talsverðan tíma og Lalli vonast til að það eigi eftir að hjálpa liðinu í komandi baráttu. Eins og sakir standa lítur þetta í það minnsta bara vel út fyrir Þórsara!

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -